Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar telur það vera fráleita aðgerð að lækka sykurskatt. Þetta kemur fram í áliti minnihlutans á tillögum á breytingu á virðisaukaskatti og niðurfellingu vörugjalda. Þetta kom einnig fram í máli Árna Páls Árnasonar á Alþingi í dag. „Það eru hræðileg skilaboð frá lýðheilsulegum sjónarmiðum," sagði Árni Páll í umræðum um breytingarnar.

Á þinginu sagði Árni Páll áherslur Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, bera það með sér að þeir sem ekki kaupi sér fleiri flatskjái og nuddpotta fái ekkert út úr breytingunum. Hinsvegar hvetji þær efnaminna fólk til þess að borða meiri óhollustu og hegni þeim sem reyni að borða holl matvæli.

Vilja að fólk borði óhollan mat

Árni Páll telur að áherslur fjármálaráðherra endurspegli áherslur ríkisstjórnarinnar sem séu andstæðar lýðheilsu. Jafnframt séu gefnar forsendur sem breytingarnar hafi á verðlag illa ígrundaðar. „Jafnvel þó að fólk hlýði fyrirmælum ríkisstjórnarinnar og borði meira jukk og sullumbull og drekki meira gos, þá munu samt ekki aukast ráðstöfunartekjur þeirra, nema að allar verðbreytingarnar skili sér með nákvæmlega sama hætti út í verðlag," segir Árni Páll. Hann segir ríkisstjórnina vera illa haldna af veilu.

Í máli Péturs Blöndal, sem kom í pontu á eftir Árna Páli, kom fram að hann teldi málflutning Árna ekki málefnalegan.