Ríkisstjórnarflokkarnir bæta báðir við sig fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR .

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 23,4%, en það var 21,6% í síðustu könnun sem var framkvæmd í snemma í febrúar. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú með 12,8% fylgi, en það var 10,8% í síðustu könnun. Samanlagt bæta því ríkisstjórnarflokkarnir við sig 3,8% fylgi.

Sem fyrr eru Píratar þó lang stærsti flokkur landsins, þrátt fyrir að fylgi hans minnki milli kannana. Fylgi hans mældist 38,6% í síðustu könnun en er nú 37%.

Bæði Samfylking og Vinstri grænir tapa töluverðu fylgi. Vinstri grænir mælast nú með 7,8% fylgi, en þeir voru með 10,2% í febrúar og 11% í janúar. Samfylking mælist nú með 7,8% fylgi, en hún var með 9,5% í febrúar.

Aðrir flokkar myndu ekki ná manni á þing. Björt framtíð er ennþá undir 5% markinu, en fylgi flokksins mælist nú 4,2%, en var 3,7% í síðustu könnun.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 32,7%, en hann var 31,9% í síðustu könnun.