Ný ríkisstjórn áréttar í sérstakri yfirlýsingu að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi séu tryggðar að fullu.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að yfirlýsingin sé ítrekuð til að koma í veg fyrir óróa. Sambærileg yfirlýsing var gefin út af síðustu ríkisstjórn.

Gylfi segir að ný ríkisstjórn vilji taka af allan vafa um þessi mál.

„Auðvitað hafa allir áhyggjur af bankakerfinu og skilja ekki hvað er að gerast," sagði hann á blaðamannafundi í viðskiptaráðuneytinu nú rétt í þessu.

Því sé einfaldast að skýra málin og taka af allan vafa.

Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.