Samkvæmt nýrri könnun MMR sem lauk þann 18. ágúst síðastliðinn, hefur fylgi ríkisstjórnarinnar minnkað töluvert frá því fyrirtækið gerði síðast mælingar fyrir mánuði síðan. Kváðust nú 27,2% styðja hana, en í síðustu könnun var hlutfallið sem studdi ríkisstjórnina 34,1%.

Fór fylgi Sjálfstæðisflokksins niður um tæp 5 prósentustig, eða úr 29,3% niður í 24,5%, en fylgi hinna tveggja stjórnarflokkanna hefur aðeins aukist milli kannana. Fylgi Viðreisnar fór úr 4,7% í 6,0% en fylgi Bjartrar framtíðar er komið í 3,6% eftir að hafa farið niður í 2,4% í síðustu könnun.

Vinstri grænna hefur nánast staðið í stað á milli kannana en það fer úr 20,4% í 20,5%, en fylgi Samfylkingarinnar helst alveg óbreytt, eða í 10,6%. Píratar bæta eilitlu við sig eða 0,2 prósentustigum og standa nú í 13,5% meðan Framsókn bætir ívið meira við sig og fer úr 9,6% í 10,1%.

Flokkur Fólksins heldur hins vegar áfram að hækka sig og er hann nú kominn með 6,7% fylgi, en í síðustu könnun var hann með 6,1%. Fylgi annarra flokka mældist samanlagt 4,6%.