Álver Rio Tinto í Straumsvík var rekið með 28,8 milljóna dollara tapi í fyrra eða því sem jafngildir 3,3 milljörðum króna ef tekið er mið af gengi í árslok 2016. Sölutekjur félagsins námu 386,6 milljónum dollara og drógust saman um 15% milli ára.

Eignir Rio Tinto voru metnar á 713,2 milljónir dollara. Eigið fé félagsins í lok árs 2016 var 654,5 milljónir dollara samanborið við 683,3 milljarða í lok ársins 2015. Skuldir Rio Tinto námu 58,7 milljónum dollara í lok 2016 samanborið við 61,6 milljónir árið áður.

Alcan Holdings Switzerland á 100% hlut í álverinu á Straumsvík og er Rannveig Rist forstjóri þess. Krefjandi markaðsaðstæður einkenndu síðastliðið ár og var afurðaverð lágt stærstan hluta ársins að því er kemur fram í ársreikningi félagsins. Þó tók verð að hækka undir lok ársins 2016.