Skammt frá Sahara-eyðimörkinni í Marokkó stendur stærsta sólarorkuver heims, en það er liður í metnaðarfullri áætlun yfirvalda í orkumálum. Verið er þó ekki aðeins merkilegt fyrir að vera stærst, heldur notast það við aðferð sem leysir eitt stærsta vandamál sólarorku á einfaldan en áhrifaríkan hátt.

Fyrir fyrir utan borgina Ouarzazate í Marokkó, á jaðri Sahara-eyðimerkurinnar, er Noor-Ouarzazate ( noor þýðir „ljós“ á arabísku) – stærsta sólarorkuver heimsins. Verið er 30 ferkílómetrar að stærð, eða sem samsvarar um sexföldu Álftanesinu.

Uppsett afl sólarorkuversins er 580 megawött af raforku, en áætlað er að samsvarandi framleiðsla með jarðefnaeldsneyti myndi gefa frá sér 760 þúsund tonn af koltvísýringi. Til samanburðar er uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar 690 megawött .

Raforkuframleiðslan fer þó ekki fram á þann hátt sem líklega er flestum lesendum kunnastur – svokölluð ljósspennuaðferð (e. photovoltaics ), þar sem sólarrafhlöður, vanalega að mestu úr kísil, breyta sólarorku beint yfir í raforku.

Orkan varðveitt með bráðnu salti

Þess í stað er aðferð sem kennd er við þjappaða sólarorku (e. concentrated solar power ) notuð, sem felst í því að svokallaðir sólarspeglar eru látnir beina miklu magni sólarljóss á lítinn punkt, sem býr til mikinn hita, sem síðan er notaður til að framleiða raforku. Í tilfelli Noor Ouarzazate er sólarljósið látið hita saltblöndu, sem safnar þannig í sig og varðveitir mikið magn varmaorku, sem síðan má leysa úr læðingi eftir þörfum með því að hita vatn og búa til gufu sem knýr túrbínu og framleiðir þannig rafmagn.

Þjöppuð sólarorka hefur þann kost fram yfir ljósspennuþiljur að hún getur framleitt raforku jafnvel þegar sólarljóss nýtur ekki við. Eitt stærsta vandamálið við ljósspennusólarver hefur einmitt verið að á næturnar eða þegar veðurskilyrði eru slæm hefur þurft að nota gamaldags mengandi aðferðir eins og kolabrennslu til að framleiða þá raforku sem upp á vantar.

Þess ber þó að geta að fleiri lausnir hafa verið fundnar á því vandamáli en þjöppuð sólarorka, til að mynda liþíum-rafhlöður. Eins og sakir standa er þjöppuð sólarorka hins vegar ódýrari leið til að varðveita varmaorku til notkunar á sólarlausum stundum, og því var sú leið farin í Noor Ouarazazate .

500 kílómetra trog og 250 metra turn

Framkvæmdir hófust í maí 2013, og nú fyrir stuttu var verið loks fullklárað, en framkvæmdum, og verinu sjálfu, var skipt í þrjá meginhluta, sem allir byggja á þjappaðri sólarorku, og einn ljósspennuhluta.

Fyrsti hlutinn, Noor I , fólst í byggingu orkuvers sem notar svokölluð sólartrog (e. parabolic trough ) – hvelfda spegla með leiðslu fyrir framan þá sem þeir beina sólarljósinu að. Leiðslurnar innihalda svo saltblönduna, og eru samtals 240 km langar í Noor I . Saltið geymir næga varmaorku til að framleiða rafmagn í 3 klukkustundir án sólarljóss, og framleiðir 160 MW af raforku sem sér 115 þúsund heimilum fyrir rafmagni. Noor I var fullkláraður og tekinn til notkunar á fyrri hluta ársins 2016.

Annar hlutinn, Noor II , er svipaður og sá fyrsti, en er stærri í sniðum. Leiðslurnar þar eru samanlagt 272 kílómetra langar og verið getur gengið í 6 klukkutíma án sólarljóss. Uppsett afl er 200MW , sem gerir það öflugasta einstaka hlutann, og veitir rafmagni til 160 þúsund heimila. Noor II var fullkláraður og tengdur við raforkunetið í janúar 2018.

Sá þriðji, Noor III , er töluvert frábrugðinn fyrirrennurum sínum. Hann notast ekki við sólartrog, heldur var 243 metra stór turn reistur á miðju svæðinu, og hann umkringdur flötum speglum sem beina sólarljósi að toppi turnsins, sem geymir saltið, og nær við það yfir 500 gráðu hita. Hann getur starfað í tæpar 8 klukkustundir án sólarljóss og er uppsett afl 150 MW af rafmagni fyrir yfir 100 þúsund heimili. Noor III var tekinn til notkunar í janúar síðastliðnum.

Fjórði og síðasti hluti verkefnisins, Noor IV , notast við ljósspennuþiljur, og er uppsett afl – eins og talnaglöggir lesendur hafa eflaust þegar áttað sig á – 70 MW af raforku.

Mikið fjármagn frá alþjóðastofnunum

Kostnaður við verkefnið er hátt í 1.000 milljarðar króna, en margar alþjóðlegar stofnanir hafa veitt til þess fjármagn, þar á meðal Evrópski fjárfestingabankinn, Evrópusambandið, Alþjóðabankinn og Afríski þróunarbankinn, sem sín á milli hafa lagt til hundruð milljarða.

Tíminn einn mun svo leiða það í ljós hvort þjöppuð sólarorka verður framtíð sólarorkuvera, eða betri lausn finnst á geymsluvanda ljósspennuþilja.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð og hægt er gerast áskrifandi hér .