*

þriðjudagur, 22. janúar 2019
Innlent 28. desember 2016 16:02

Risabílabraut í Kringlunni

Sett hefur verið upp stór bílabraut sem er í laginu eins og Ísland og geta gestir farið í kappakstur.

Ritstjórn

Orkusalan hefur sett upp bílabraut fyrir utan Vero Moda í Kringlunni en brautin er 4x5 metrar. Með uppsetningu brautarinnar er Orkusalan að minna á mikilvægi rafbílavæðingar landsins.

Hægt er að keyra nokkrar tegundir af fjarstýrðum bílum á brautinni og fara í keppni við aðra viðstadda. Brautin var sett upp í morgun og í tilkynningu segir að mikil aðsókn hafi verið í brautina síðan hún opnaði.

„Við ákváðum að setja brautina upp þar sem að við höfum undanfarið unnið að því að rafbílavæða Ísland en við gáfum öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Börn og fullorðnir ættu því að geta skemmt sér við að stýra fjarstýrðum bílum í Kringlunni næstu daga og það er eins með þessu fjarstýrðu og rafbílana að þeir hafa auðvitað ekki slæm áhrif á umhverfið,“ er haft eftir Hafliða Ingasyni, sölustjóra Orkusölunnar, í tilkynningu.

Bílabrautin verður opin út föstudag.

Stikkorð: Orkusalan Kringlan