Niðurstaðan í einu stærsta samrunamáli síðari ára í Bandaríkjunum mun liggja fyrir á morgun þegar dómur verður kveðin upp í samrunamáli AT&T og Time Warner. Málið sem á rætur sínar að rekja til ársins 2016 þegar AT&T tilkynnti að félagið hefði náð samkomulagi um yfirtöku á Time Warner fyrir 85,4 milljarða dollara.

Í nóvember síðastliðnum vísaði bandaríska dómsmálaráðuneytið samrunanum til dómstóla með það að markmiði að koma í veg fyrir samrunann. Voru rök stjórnvalda á þá leið að samruninn myndi veita sameinuðu fyrirtæki of víðtæk yfirráð á bandarískum fjölmiðlamarkaði.

Samkvæmt frétt New York Times er gert ráð fyrir því að niðurstaðan í málinu muni hafa áhrif út fyrir samruna AT&T og Time Warner þá sérstaklega hvað varðar lóðrétta samruna (e. vertical mergers) í sambærilegum málum. Verði fallist á kröfur dómsmálaráðuneytisins er talið líklegt að ráðuneytið muni ganga enn harðar fram í samrunamálum í framtíðinni.