Fá verkefni þykja stórtækari og metnaðarfyllri á sviði alþjóðamála undanfarin ár en frumkvæði kínverskra stjórnvalda sem kennt er við „belti og braut“.

Framtakið, sem á ensku kallast belt and road initiative , felur í sér klasa af innviðaverkefnum sem spanna svæðið frá Asíu til Afríku, Mið-Austurlanda og Evrópu. Belti og braut sækir innblástur í hina fornu Silkileið, en framtakið skiptist í grófum dráttum í landleiðir (beltið) og sjóleið­ir (brautin). Um er að ræða framkvæmdir á borð við vegi, brýr, járnbrautir, hafnir, flugvelli, virkjanir, gasleiðslur, olíuhreinsunarkerfi, námur, rafmagnslínur, ljósleiðara og fleira sem tengjast saman í samfellt net.

Frumkvæði Kínverja um belti og braut er ætlað að tengja Kína – sem er útflutningsdrifið hagkerfi – á skilvirkari hátt við umheiminn þegar kemur að alþjóðaviðskiptum, en einnig vísindum, menntun og menningu. Öllum vegum er þannig ætlað að liggja til Peking, en með framtakinu freista Kínverjar þess að auka umsvif sín og áhrif á alþjóðavísu.

Belti og braut
Belti og braut
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Belti og braut er lauslega skilgreint fyrirbæri. Fjárhagslegt umfang og fjármögnun eru nokkuð á reiki. Greiningaraðilar hafa þó metið heildarfjárfestingarþörf framtaksins á fjóra til átta þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða því sem nemur allt að 800 þúsund milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar nam Marshallaðstoð Bandaríkjanna í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld um 130 milljörðum dollara að nú­virði. Meðal lykilfjárfesta eru Innviðafjárfestingarbanki Asíu, Silkivegssjóðurinn og kínverskir ríkisbankar. Þörfin fyrir einkafjármagn og fjármagn frá samstarfsríkjum er einnig ótví­ræð, en þátttaka er öllum ríkjum heims opin.

Xi Jinping, leiðtogi Alþýðuveldisins Kína, kynnti belti og braut árið 2013, ári eftir að hann tók við embætti forseta. Stefnt er að því að ljúka verkefninu árið 2049, þegar 100 ár verða liðin frá Menningarbyltingunni í Kína. Er það jafnframt árið þegar Xi hefur heitið því að Kína verði orðið ofurstórveldi. Ljóst er að belti og braut verður því helsta stefnumál Xi í utanríkismálum í fyrirsjáanlegri framtíð, en fyrr á árinu voru afnumin ákvæði úr kínversku stjórnarskránni um hversu lengi forseti landsins getur setið við völd.

Þótt tíminn einn muni leiða í ljós árangur og áhrif framtaksins um belti og braut hefur það þegar fest rætur. Síðastliðið haust var framtakið greipt inn í stjórnarskrá kommúnistaflokks Kína. Samstarfsríki áætlunarinnar eru meira en 65 ríki frá Nýja-Sjálandi  til Póllands, með tvo þriðju af samanlögðum mannfjölda heimsins og um 40% af vergri heimsframleiðslu. Nú þegar hafa meira en eitt þúsund milljarðar dollara verið fjárfestir í verkefninu og sífellt fleiri víddir bætast við, svo sem í Suður-Ameríku, Afríku og á norðurslóðum.

Tálsýn eða gull og grænir skógar?

Ekki eru þó allir sammála um ágæti áætlunar Kínverja um belti og braut.

Kínverjar eru að marka markvissari utanríkisstefnu og efla heraflann samhliða innviðafjárfestingum um víðan völl – jafnvel með herstöðvum við helstu skipa- og flutningaleiðir – sem gefur til kynna að fleira sé í húfi en viðskipti og hagvöxtur. Sett hafa verið spurningarmerki við hvað búi raunverulega að baki áformum Kínverja, allt frá alþjóðavæðingu júansins til heimsyfirráða Kína, sem hvorki er markaðsríki né lýð­ræðisríki í hefðbundnum skilningi, undir formerkjum frjálsra heimsviðskipta og friðsamlegrar samvinnu. Þá séu innviðaverkefni Kínverja ekki laus við efnahagslega áhættuþætti  líkt og fjármagnssóun, áhættustýringu kínverskra banka og mikla skuldsetningu auk pólitískrar áhættu, eins og greiningaraðilar á borð við Moody’s og Fitch Ratings hafa bent á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .