Kínversk ritskoðunaryfirvöld hafa stöðvað fréttaflutning nokkurra stærstu fréttaveitna landsins á netinu. Er þetta nýjasta skref forseta Kína, Xi Jinping til að hafa hemil á fjölmiðlun í landinu, en hún hefur orðið mun frjálsari á síðustu árum en hún var í árdaga kínverska alþýðulýðveldisins þegar Mao Zedong náði völdum í landinu.

Forsetinn mætti og sagði hollustu við flokkinn eiga að vera umfram allt

Þetta skref er tekið fjórum mánuðum eftir að forsetinn mætti á skrifstofur þriggja helstu ríkisfjölmiðla landsins, Xinhua fréttaveitunnar, People´s Daily fréttablaðsins og China Central sjónvarpsstöðvarinnar. Lagði hann þar áherslu á hollustu við flokkinn umfram allt annað í máli sínu.

Fréttasíðunum Sina, Sohu og NetEase var lokað um helgina fyrir að hafa brotið reglur sem banna þeim sjálfstæða fréttaöflun. Þó það hafi verið ólöglegt að ráða fréttamenn og birta efni frá sjálfstæðum fréttaveitum, þá hefur reglunni sjaldan verið framfylgt.

Sjálfstæð fréttamennska brot á reglum

Talsmaður yfirvalda ljósvakamála í Beijing staðfesti að halda úti sjálfstæðri fréttamennsku væri gróft brot á reglum og gæti haft „sérlega slæmar afleiðingar.“ Bætti hann við að fyrirtækjunum sem halda úti síðunum hefði verið gefinn frestur til að laga síðurnar sem hefðu brotið reglurnar.

Ástæða lokunarinnar nú er talin vera fréttir af flóðum í norðurhluta Kína, sem samkvæmt opinberum tölum hafa valdið dauða 130 manns og valdið skemmdum að andvirði rúmra 2,4 milljarða í Hebei héraði.

Sýndu fréttir á síðunum aurflóð og lík fljótandi í ám, sem hafa verið deilt áfram á samfélagsmiðlum. Kínversk yfirvöld kjósa heldur að fréttaflutningurinn snúist um hetjulega framgöngu hersins við að bjarga þorpsbúum í neyð.

Forsetinn staðfestur í annað 5 ára kjörtímabil

Undir stjórn Xi forseta hafa Kínversk ritskoðunaryfirvöld hert aðgerðir sínar gegn vefbloggum og öðrum nýjum miðlum, og eru fréttir af slysum og flóðum sérlega viðkvæm nú þegar hyllir undir 19. flokksþing Kommúnistaflokksins á næsta ári, þegar nýtt fimm ára kjörtímabil forsetans verður staðfest.

„Ríkisstjórnin vill ekki að þessir miðlar framleiði eigið fréttaefni, þeim verður einungis heimilt að miðla áfram fréttum frá frá fréttastöðvum eins og Xinhua og People´s Daily,“ sagði Qiau Mu, prófessor í fréttamennsku í Beijing.