Facebook hefur brugðist gagnrýni um að svokallaðar „Trending" fréttir á síðunni séu einhliða með því að reka ritstjórnarteymið sem sá um að velja þær greinar sem birtust í liðnum.

Gert að halda íhaldssamari málefnum frá

Gagnrýnin kom fram fyrr í sumar þegar tæknisíðan Gizmodo birti skýrslu sem hélt því fram á að þær fréttir sem birtust í liðnum hölluðu á íhaldssamari fréttasíður.

Samkvæmt skýrslunni sem vitnaði í fyrrum starfsmenn sem komu ekki fram undir nafni, var þeim gert að halda málefnum sem íhaldssamari notendur síðunnar smelltu frekar á frá liðnum. Jafnframt var þeim gert að birta ákveðin málefni, jafnvel þó þau væru ekki vinsæl.

Bregðast við gagnrýni með meiri sjálfvirkni

Facebook hefur hafnað því að það halli á íhaldssamari notendur, og til að reyna að bæta ímynd sína bauð fyrirtækið ýmsum þekktum íhaldsmönnum, þar á meðal fyrrum sjónvarpsmanninum Glenn Beck, í skrifstofur fyrirtækisins til að heyra þeirra sjónarmið.

Í stað þess að ritstjórnarmenn velji hvað birtist undir liðnum verður hann nú undir umsjón hóps verkfræðinga sem munu einungis fylgjast með því að hann uppfylli gæðakröfur, að öðru leiti mun hann endurspegla það sem almennir notendur síðunnar eru að tala um.

Sem dæmi um gæðakröfur þá munu þeir til að mynda hindra að almennar umræður um hádegismat birtist í liðnum yfir vinsælasta umræðuefnið, því líklegt sé að slíkar umræður geti mælst hátt í vinsældum þó ekki sé um sérstakt fréttaefni sé um að ræða.

Flýtir fyrir breytingum

„Með því að nota meira kerfislægt, sjálfvirkt valkerfi vonumst við til þess að liðurinn nái yfir fleiri málefni og nái til fleira fólks út um allan heim þegar fram líða stundir. Þetta er eitthvað sem við væntum alltaf að við gætum gert, en við erum að fara út í þessar breytingar fyrr vegna viðbragða sem við fengum frá samfélagi facebook notenda fyrr á árinu," segir í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Eins og áður geta notendur látið músina liggja yfir eitthvað umræðuefni og þá fá þeir stutta lýsingu á málefninu frá aðalfréttinni eða umfjöllun um það, og ef þeir smella á það, munu þeir færast yfir á síðu með greinum og umræðum, sem raðað verður eftir vinsældum.

Þau málefni sem þarna birtast munu áfram miðast við staðsetningu og ætluð áhugasvið notenda, byggt á notkun þeirra, eins og fréttaveita síðunnar.