Fyrirtækið Orf líftækni var stofnað af nokkrum vísindamönnum árið 2001 en þeir höfðu þá þróað nýstárlega aðferð fyrir framleiðslu á sérvirkum prótínum fyrir læknisrannsóknir, lyf og iðnað. Fyrirtækið var lengi eitt af áhugaverðustu sprotafyrirtækjum landsins og hefur nú náð stöðu meðalstórs alþjóðafyrirtækis með um milljarð í heildarveltu. Ef fram fer sem horfir þá verður vöxtur fyrirtækisins í ár um 30% en BIOEFFECT snyrtivörulínan spilar þar stórt hlutverk.

Frosti Ólafsson, sem er hagfræðingur og með MBA gráðu frá London Business School, tók við starfi forstjóra Orf líftækni í byrjun árs og hefur síðan þá gengið í gegnum þónokkar breytingar með fyrirtækinu sem hann segir standa á tímamótum um þessar mundir. Áhugaverðir tímar eru fram undan en fyrirtækið hóf til að mynda nýverið öfluga innreið á Bandaríkjamarkað og býr fyrirtækið sig nú undir enn meiri vöxt. Líkt og önnur útflutningsfyrirtæki líður Orf líftækni fyrir sterkt gengi krónunnar og örar launahækkanir undanfarin misseri og segir Frosti helsta vandamál íslensk hagkerfis hafa legið á vinnumarkaðnum þar sem skammtímasjónarmið og eiginhagsmunir virðast hafa ráðið för.

Úr sprota í alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki

Fylgdu þér einhverjar sérstakar áherslubreytingar þegar þú tókst við sem forstjóri?

„Já og nei. Það má segja að mínar áherslur hafi einkum falist í því að skerpa á stefnu fyrirtækisins og styrkja innviðina þannig að við séum betur undir það búin að takast á við frekari vöxt. Ég byrjaði í febrúar á þessu ári og það er mikið búið að gerast á stuttum tíma. Það má segja að fyrirtækið sé á margan hátt á tímamótum óháð minni ráðningu.

Við fluttum í nýtt húsnæði í vor en því fylgdi algjör umbylting á okkar starfsaðstöðu, bæði hvað varðar framleiðslu, vísindaaðstöðu og skrifstofustarfsemi. Auk þess er mun skemmtilegra að taka á móti blaðamönnum og öðrum gestum í þessu fallega umhverfi. Á sama tíma erum við að þroskast úr því að vera hraðvaxandi sproti yfir í að verða alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki. ORF mun rjúfa milljarðinn á þessu ári í heildarveltu og við höfum vaxið hratt á undanförnum árum. Ef fram fer sem horfir verður vöxturinn á þessu ári ríflega 30%. Þá eru starfsmenn fyrirtækisins orðnir fleiri en 50 talsins. Við erum að þróa og þroska fyrirtækjainnviðina núna til að vera í stakk búin til að takast á við frekari vöxt.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.