Róbert Wessman á 22% hlut í lyfjafyrirtækinu Alvogen samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið . Róbert á hlutinn í gegnum röð félaga á Jersey, Lúxemborg og Svíþjóð. Samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg er Alvogen metið á allt að 4 milljarða dollara sem þýðir að hlutur Róberts er metinn á allt að 90 milljarða króna.

Eignarhald Róberts liggur í gegnum sjáfseignarstofnunina Hexalonia Trust á eyjunni Jersey sem á félagið Hexalonia Investments ltd. á Jersey sem aftur á Hexalonia Holdings S.A. í Lúxemborg sem á 74% hlut í félaginu Aztiq Partners AB í Svíþjóð.

Aztiq Partners AB á svo félagið Aztiq Finance Holding S.a.r.l. í Lúxemborg sem á félagið Aztiq Finance S.C.A. í Lúxemborg sem á félagið Aztiq Pharma Partners SCA sem á Celtic Structure í Lúxemborg sem á að lokum 30% hlut í Alvogen að því er kemur fram í Morgunblaðinu.

Í yfirlýsingu frá Alvogen um málið er fullyrt að umfjöllunin byggi á stolnum gögnum og unnin án þess að tekið hafi verið tillit til  útskýringa Alvogen á eignarhaldinu. „Með þessu er eignarhald fyrirtækisins gert tortryggilegt án þess að viðeigandi skýringar fái að fylgja með.”

Yfirlýsingu Alvogen má lesa í heild sinni hér að neðan:

Morgunblaðið birti í morgun umfjöllun um eignarhald lyfjafyrirtækisins Alvogen og vill fyrirtækið og stjórnendur þess koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Stefán Einars Stefánsson blaðamaður á Morgunblaðinu óskaði eftir viðtali við stjórnendur Alvogen í liðinni viku og vildi ræða eignarhald fyrirtækisins. Þegar til fundarins kom var ljóst að þau gögn sem blaðamaðurinn hafði undir höndum hafði verið stolið af skrifstofu félagsins. Engu að síður var orðið við ósk blaðamanns um viðtal og öllum spurningum hans var svarað.

Morgunblaðið bauð Alvogen að koma á framfæri athugasemdum og tilvitnun um fyrirhugaða umfjöllun blaðsins. Það var þegið með þökkum og neðangreindar upplýsingar sendar blaðinu. Í samskiptum við blaðamann var óskað eftir því að sanngirni og jafnræðis yrði gætt í umfjöllun Morgunblaðsins um eigendur Alvogen og að sjónarmiðum aðila væri komið á framfæri. Blaðamaður gaf Alvogen munnlegt og skriflegt samþykki fyrir því að athugasemdir Alvogen yrðu teknar með í umfjöllun blaðsins og sagðist tryggja að slíkt yrði birt að fullu með neftrétt blaðsins sem var ekki gert.

Morgunblaðið ákveður hinsvegar að handvelja upplýsingar úr gögnum málsins og taka ekki inn innsendar athugasemdir fyrirtækisins sem blaðamaður hafði sjálfur boðið Alvogen að veita. Með þessu er eignarhald fyrirtækisins gert tortryggilegt án þess að viðeigandi skýringar fái að fylgja með. Þannig skortir umfjöllun blaðamanns jafnræði og sanngirni í sinni umfjöllun sem forsvarsmenn fyrirtækisins harma.

Eftirfarandi er yfirlýsing Alvogen sem send var blaðamanni Morgunblaðsins í gær. Fyrirtækið hefur nú í morgun ítrekað ósk sína um að athugasemdir verði birtar í heild sinni líkt sem Stefán Einarsson, blaðamaður Morgunblaðsins hafði bæði boðið og lofað viðmælendum sínum að yrði birt.

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, segir að hér eftir sem hingað til sé það auðsótt mál að veita upplýsingar um eignarhald fyrirtækisins. Í dag séu eiginlegir hluthafar fyrirtækisins fjórir; Aztiq Pharma Partners SCA (fjárfestingarsjóður í Luxemborg) alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn CVC Capital Partners, Temasek, sem er sjóður í eigu ríkisstjórnar Singapore, og Vatera Healthcare Partners, í Bandaríkjunum.  Aðkoma þessara sjóða hefur áður verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Astiq Pharma Parters SCA, fjárfestingasjóður undir stjórn Róberts Wessman á 31% eignarhlut, en frá stofnun sjóðsins hefur hann verið hluthafi í Alvogen eins og kunnugt er.  Mun fleiri fjárfestar eru aðilar að fjárfestingu í Alvogen og flestir þeirra eru alþjóðlegir fjárfestingasjóðir í dreifðu eignarhaldi.

Á árinu 2015 komu inn framangreindir viðbótar fjárfestar í Alvogen og sama ár var sjálfseignarstofnunin, Hexalonia trust, stofnuð af Róberti með það að markmiði að taka þátt í breyttu eignarhaldi.  Sá sjóður hefur frá stofnun ekki frekar en aðrir núverandi fjárfestar í Alvogen haft neinar tekjur eða arð af fjárfestingunni. “Það hefur alltaf staðið til að fjárfesting Astiq Pharma Partners í Alvogen yrði farsæl, en það liggur því miður enn ekki fyrir þar sem félagið hefur ekki verið selt og lyfjageirinn er eins og þeir sem til þekkja, hverfull.  Félagið byggir alfarið á hugmyndafræði Róberts og ásetningur allra hlutaðeigandi er að Róbert njóti góðs af því ef það gerist enda er möguleg verðmætasköpun sjóðsins og Alvogen í hans höndum. Stofnun Hexalonia hefur þann kost að Róbert getur tryggt að ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum fari ekki til annarra en erfingja til framtíðar og þó um leið sé fórnað ákveðnu skattalegu hagræði.  Hér er átt við þann augljósa ókost slíkra sjóða sem er að greiddur er tekjuskattur af greiðslum úr honum, ef til kemur, sem er rúmlega tvöföld skattlagning fjármagnstekna.

Árni segir enn fremur að form slíkra sjóða sé, á sama veg og gildir um sjálfseignarstofnanir á Íslandi, þannig að Róbert afsali sér að fullu rétti til eignahalds, ákvarðana eða ráðstafana varðandi eignir sjóðsins og sé þannig ekki eigandi þeirra eigna er undir sjóðinn falla og getur ekki undir neinum kringumstæðum ráðstafað eignum hans.  Hann, eins og fjölskylda hans, er það sem á ensku er kallað beneficiary og á íslensku kallast sennilega skilyrtur rétthafi að framtíðar fjármunum ef hugsanlega er úthlutað í framtíðinni úr þessari sjálfseignarstofnun.  Róbert er því líkt og áður ekki beinn hluthafi í Alvogen en vonandi hans vegna, mun sjálfseignarstofnunin Hexalonia njóta góðs af mögulegum arði vegna fjárfestingar í Alvogen og úthluta fjármunum til fjölskyldu hans í framtíðinni.  Allar slíkar úthlutanir eru að sjálfsögðu að fullu tekjuskattsskyldar á Íslandi, ef móttakandi þeirra tekna býr þar.”