Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu vegna Landsdómsmálsins. Róbert Ragnar Spanó, dómari við Mannréttindadómstólinn, hefur ákveðið að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis. Fréttablaðið greinir frá þessu.

„Ég tjáði mig opinberlega um málið sem lagaprófessor á meðan það var til meðferðar auk þess að skrifa um niðurstöðu Landsdóms bæði í Fréttablaðið og í fræðirit sem ég hef gefið út,“ útskýrir Róbert.

Hann kveðst hafa tekið ákvörðunina sjálfur og hún hafi verið tilkynnt í samræmi við lög, en í reglum dómstólsins kemur meðal annars fram að það verði að vera hafið yfir allan vafa að dómarar séu óháðir málsaðilum og alveg hlutlausir í dómarastörfum sínum.