Háskólinn í Reykjavík (HR) kynnir í dag, á 90 ára afmælisdegi Viðskiptaráðs Íslands, nýjar leiðir í fjármögnun skólans til að tryggja honum sess á meðal framsæknustu háskóla Evrópu. Þær miða meðal annars að því að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum að koma með beinum hætti að uppbyggingu skólans. Gert er ráð fyrir að þetta skili háskólanum allt að 2.000 milljónum króna. Róbert Wessman, forstjóri hefur þegar ákveðið að leggja fram 1.000 milljónir króna sem hlutafé og framlag í Þróunarsjóð HR.

Í frétt á heimasíðu skólans kemur fram að gefið verður út nýtt hlutafé sem nemur um 250 milljónum króna. Eftir hlutafjáraukningu verða aðstandendur háskólans áfram þeir sömu, þ.e. Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs um viðskiptamenntun (SVÍV) sem mun eiga 51% og Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök atvinnulífsins (SA) með samtals um 5%, en auk þeirra munu nýir hluthafar fara með 44% hlutafjár.


Samhliða hlutafjáraukningu verður stofnaður Þróunarsjóður HR með viðbótarfjárframlagi frá nýjum hluthöfum. Stefnt er að því að Þróunarsjóðurinn hafi um 1.500 millljónir króna til ráðstöfunar. Róbert Wessman, forstjóri hefur þegar ákveðið að leggja fram 1.000 milljónir króna sem hlutafé og framlag í Þróunarsjóð HR.


Menntamálaráðuneytið hefur frá stofnun Háskólans í Reykjavík staðið dyggilega við bakið á háskólanum og haft mikinn áhuga og skilning á uppbyggingu hans. Stuðningur og þátttaka einstaklinga og fyrirtækja í atvinnulífinu mun á engan hátt draga úr mikilvægi stuðnings stjórnvalda við háskólann og mun HR starfa áfram samkvæmt þjónustusamnigi skólans við ráðuneytið.


Auk þessarar fjáröflunar er fyrirhugað að gera þjónustusamninga við fyrirtæki hér heima og erlendis á sviði símenntunar, rannsókna og ráðgjafar. Bakhjörlum skólans gefst þannig kostur á að starfa með innlendum og erlendum sérfræðingum skólans, fá aðgengi að samstarfssamningum HR við MIT háskóla og aðra erlenda samstarfsaðila skólans og fá aðgengi að námsefni HR, fjarkennslu, öllum sérsniðnum lausnum og námskeiðum.
Allur arður af starfsemi Háskólans í Reykjavík, gjafafé, aðrir fjármunir úr Þróunarsjóði HR og verðmæti lands í eigu HR renna til skólans og verða einungis nýtt til frekari uppbyggingar á starfsemi og aðstöðu skólans. Eins og áður verður ekki heimilt að greiða út arð til hluthafa.