Skúli Magnússon, lögfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, skrifar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að erfitt sé að finna góð rök fyrir því að rjúfa þing og boða til kosninga.

Segir hann íslenska stjórnskipun vera reista á hugmynd um stjórnskipulegt lýðræði sem líta megi á sem andstæðu óhefts meirihlutaræðis, skrílræðis og popúlisma.

,,Það er grundvallaratriðið í lýðræðishugtaki íslenskrar stjórnskipunar að helstu valdastofnanir hafi lýðræðislegt umboð með því að í þær er skipað til ákveðins tíma með kosningum sem fram fara á grundvelli skýrra leikreglna þar sem miðlun upplýsinga, virk umræða og jafnræði á að vera tryggt," skrifar Skúli m.a. í grein sinni.

Hann segir vissulega geta komið upp þá stöðu að ríkisstjórn biðjist lausnar og óski þess að forseti Íslands rjúfi þing og boði til kosninga. Segir hann það einkum eiga við þegar ekki er unnt að mynda eða viðhalda starfhæfri ríkisstjórn, en slík staða sé ekki uppi í dag. Frá sjónarhóli stjórnarskránnar og stjórnskipulegs lýðræðis séu því vandfundin rök fyrir því að boðað sé til kosninga áður en stjórnarskráin gerir ráð fyrir að svo sé gert.