Hótelvæðing ferðaþjónustunnar er farin að teygja anga sína ansi víða. Um helgina opnar fyrsta hótelið í Garðinum úti á Reykjanesi. Hótelið, sem er um 1.300 fermetrar, er byggt úr finnskum bjálkum. Hótelið er í eigu bræðranna Gísla, Einars og Þorsteins Heiðarsonar, sem hafa síðustu ár rekið gistiheimili í Garðinum.

Á nýja hótelinu eru 26 herbergi. Gísli segir að þau séu 22 til 26 fermetrar, með baðherbergi, sjónvarpi og öllum helstu þægindum eins og til dæmis þráðlausu neti. Þá séu einnig tvær 44 fermetra svítur á hótelinu og fjögur herbergi, sem séu sérsniðin að þörfum fatlaðra. Gísli segir að á hótelinu sé stórt þjónustuhús, þar sem boðið verði upp á morgunverð og þar sé einnig bar. Í móttökunni verði starfsmaður allan sólarhringinn.

„Það hefur verið nóg að gera og fólki líkar vel hérna í Garðinum," segir Gísli. „Okkur hefur í dágóðan tíma langað til að gera eitthvað meira en að reka gistiheimili. Það var samt ekki auðsótt vegna gildandi skipulags. Aftur á móti opnaðist ákveðinn gluggi þegar sveitarfélagið samþykkti nýtt aðalskipulag. Þá sóttum við um lóð, sem við fengum."

Bjálkar eða steypa

Gísli segir að þeir bræður hafi ekki viljað byggja steypt hús. Þeim hafi ekki fundist það passa inn á svæðið. Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika hafi niðurstaðan verið sú að semja við finnska fyrirtækið Honkamajat um byggingu bjálkahúss.

„Við fórum til Finnlands að skoða þeirra hús og vorum mjög ánægðir með það sem við sáum," segir Gísli. „Þetta er fyrsta húsið sem þeir selja til Íslands en fyrirtækið er nokkuð stórt í Finnlandi og hefur verið að selja mikið til Evrópu, Rússlands og Kína."

Að sögn Gísla hófst vinna við byggingu hótelsins fyrir nákvæmlega ári síðan. Þá var grunnurinn lagður.

„Í byrjun júní í fyrra komu sex smiðir frá finnska fyrirtækinu til okkar. Það tók okkur tuttugu daga að reisa húsið með sperrum. Eftir þann tíma var einn Finni með okkur í þrjár vikur í viðbót til að sýna okkur hvernig við ættum að klára verkið. Við höfum því verið í samtals ellefu mánuði að byggja sjálft húsið og innrétta það."

200 þúsund fermetrinn

Gísli segir að bjálkahús af þessari stærð sé töluvert ódýrara í byggingu en steypt hús.

„Kostnaðurinn er um 200 þúsund krónur á fermetrann en ef við hefðum steypt húsið þá hefði fermetrinn verið á 350 til 400 þúsund."

Gísli segir að öfugt við það sem margir halda séu bjálkahús mjög góð þegar kemur að brunavörnum.

„Svona bjálkar brenna aldrei alveg heldur sviðna þeir," segir Gísli. "Finnland er skógi vaxið land og Finnarnir sem komu til okkar sögðu að í gamla daga þá hafi fólk leitað skjóls í bjálkahúsum ef það geisuðu skógareldar.

Annað sem hefur komið okkur á óvart er hversu hljóðeinangrunin er góð. Við höfum unnið mikið inni í húsinu í vetur og oft á tíðum hefur verið brjálað veður. Þrátt fyrir það höfum við ekkert fundið fyrir veðrinu — ekki einu sinni heyrt í vindinum. Húsið er alveg rokhelt ef svo má að orði komast."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .