Ægir Már Þórisson hóf störf hjá Advania fyrir um fimm árum, þá sem framkvæmdastjóri markaðs- og mannauðssviðs Advania. Í október síðastliðnum tók hann við sem forstjóri fyrirtækisins af Gesti G. Gestssyni sem færði sig í móðurfélag Advania á Norðurlöndunum, Advania Norden. Margt hefur breyst í rekstri Advania frá því að fyrirtækið hlaut nafn sitt árið 2012.

Fyrirtækið er afsprengi fyrirtækjanna Eskils, Kögunar, Landsteina Strengs og Skýrr en fram að nafnabreytingunni störfuðu fyrirtækin öll undir nafni Skýrr sem á sér langa sögu í upplýsingatækniþjónustu á Íslandi. Á síðasta ári varð fyrirtækið að fullu í eigu sænska fyrirtækisins AdvInvest og er það nú með um 1.000 starfsmenn á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Er það enn markmið hjá núverandi eigendum Advania að skrá fyrirtækið á markað?

„Það er og hefur verið stefna eigenda að Advania verði skráð á markað. Tímasetning er hins vegar alfarið mál eigenda á hverjum tíma. Við stjórnendur höfum hins vegar það hlutverk að tryggja að rekstur, innri ferlar og stjórnskipulag allt sé tilbúið, svo hægt sé að skrá félagið á markað. Ef við hins vegar skoðum hvernig fyrirtæki Advania er orðið, með stærri hluta tekna sinna utan íslands og þeim vaxtarmöguleikum sem félagið stendur frammi fyrir í Skandinavíu, þá er rökrétt líka að það sé skoðað alvarlega hvort aðalskráning félagsins verði hér heima eða Svíþjóð.“

Nánar er rætt við Ægi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .