Ron Johnson, fyrrverandi yfirmaður smásölusviðs Apple, hefur misst vinnuna sem forstjóri verslanakeðjunnar JC Penney í Bandaríkjunum. Hann var ráðinn þangað inn til að snúa við rekstri fyrirtækisins og gerði hann ýmsar breytingar á verslunum þess án þess að ná þeim árangri sem að var stefnt.

Strax og fréttir bárust af uppsögn Johnsons fór orðrómsvélin af stað og var mikið um það rætt að hann færi hugsanlega aftur til Apple. Í frétt Fortune er rætt við Adam Lashinsky, sem skrifaði bók um Apple í fyrra, og segir hann mjög ólíklegt að Johnson fari aftur til Apple. Bæði væri það mjög óvenjulegt fyrir Apple að ráða aftur til baka mann sem áður hefur yfirgefið fyrirtækið og þá hefði Johnson sjálfur væntanlega lítinn áhuga á því.

Hann hafi skapað eitthvað glænýtt þegar Steve Jobs fékk hann til að skipuleggja Apple verslanirnar og hann hafi viljað skapa eitthvað nýtt hjá JC Penney, þótt árangurinn hafi ekki verið í samræmi við væntingar. Smásöluarmur Apple sé í föstum skorðum og lítið svigrúm til nýsköpunar fyrir Johnson.