Fyrrum borgarstjóri Mexíkóborgar, róttæki vinstrimaðurinn Andrés Manuel López Obrador, vann stórsigur í forsetakosningunum í landinu í gær. Verður hann því forseti landsins næstu tæpu sex árin. Enn sem komið er virðast markaðir taka fréttunum með ró, en mexíkanski pesóinn styrktist við fréttirnar gagnvart Bandaríkjadal úr 19,91 dölum í 19,79 dali.

Obrador hafði tapað kosningunum 2006 og 2012 naumlega, en hann er fyrsti róttæki vinstrimaðurinn í forsetastólnum frá því á 9. áratug síðustu aldar, sá fyrsti frá suðurhluta landsins og sá fyrsti sem ekki er fulltrúi annars af tveimur stærstu flokkum landsins.

Fyrsti til að hafa þingið með sér frá síðustu öld

Jafnframt náði flokkur hans, Hreyfing þjóðlegrar endurnýjunar meirihluta í bæði efri og neðri deild þingsins sem og þónokkrum ríkisstjórakosningum auk borgarstjórnarkosninganna í Mexíkóborg. Það þýðir að hann er fyrsti forsetinn í landinu með meirihluta á bak við sig í þinginu frá árinu 1997. Obrador fékk meira en 53% af atkvæðunum en sá sem næstur honum kom, íhaldsmaðurinn Racardo Anaya fékk 22% atkvæða.

José Antonio Meade frá miðjusækna stjórnarflokknum Stofnanalegi byltingarflokkurinn, sem stjórnaði Mexíkó samfleytt í 71 ár á seinni hluta 20. aldarinnar, og hafði síðasta forseta, fékk einungis 16% atkvæða. Fer flokkurinn jafnframt úr því að vera með 204 af 500 þingsætum landsins í 43, en forsetatíð forvera hans, Pena Nieto hafði verið mörkuð af hneykslismálum meðal flokksmanna hans.

Ætlar að bylta spilltu kerfi

Hefur enginn forsetaframbjóðandi unnið með jafnmiklum mun síðan árið 1982, en þá ríkti ekki fullt lýðræði í landinu að því er segir í WSJ .

Obrador hafði lofað því að bylta því sem hann kallaði hið spillta óbreytta ástand, en hann hefur verið þekktur fyrir fátæklegan lífsstíl. Lét hann keyra sig í sínum einkennandi Volkswagen Jetta bíl á Zocalo torgið í miðborg Mexíkóborgar til að flytja sigurræðuna.

Þar lýsti hann því yfir að nýtt tímabil væri að hefjast fyrir fátæka í landinu, þó hann reyndi einnig að sefa áhyggjur þeirra sem óttuðust að hann væri að færa landið aftur til þess tíma þegar forsetarnir voru nánast alvaldir. Lofaði hann því að leyfa áfram sjálfstæði seðlabankans, halda fjárhag landsins stöðugu og leyfa fyrirtækjum að starfa óáreitt.

Atvinnubótavinna fyrir 2,3 milljónir ungs fólks

En hann lofaði einnig að auka félagsleg útgjöld, þar á meðal með atvinnubótavinnu fyrir 2,3 milljónir ungs fólks, styrkjum til 300 þúsund háskólastúdenta og tvöfalda lífeyri eldri borgara.

Til að borga fyrir þetta segist hann þó ekki ætla að hækka skatta heldur með því að spara andvirði 2.670 milljarða Bandaríkjadala með því að stöðva spillingu og 2.130 milljarða með því að skera niður laun og fríðindi yfirmanna í opinbera geiranum.

Talið er að utanríkisstefna hans verði andsnúnari Bandaríkjunum en almennt hefur verið í Mexíkó og óttast margir greinendur að hann bæði geti ekki greitt fyrir kosningaloforð sín sem og að hann halli sér að vinstrisinnuðum stjórnvöldum í Suður Ameríku.

Er til að mynda talið að hann bindi enda á gagnrýni mexíkanska ríkisins á einræðistilburðum Nicolas Maduro forseta Venesúela. Obrador hefur löngum líst yfir aðdáun sinni á kommúnistastjórninni í Kúbu sem verið hefur náinn bandamaður Venesúela og Salvador Allende sem vikið frá völdum í Síle af hernum að undirlagi þingmeirihlutans í landinu með stuðningi Bandaríkjanna.