Á árinu 2017 voru heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs, skammstafað R&Þ, um 55,7 milljarðar íslenskra króna hér á landi. Það jafngildir 2,13% af vergri landsframleiðslu að því er Hagstofa Íslands greinir frá.

Hlutfallsleg útgjöld til rannsókna og þróunar standa nokkurn veginn í stað á milli áranna 2016 og 2017, en árið 2015 voru útgjöldin 50,5 milljarðar króna sem jafngildir það 2,2% af vergri landsframleiðslu.

Hlutfall fyrirtækja af heildarútgjöldum við rannsókna- og þróunarstarf hefur aukist frá árinu 2013, þegar það var 56% up í 65% árið 2017. Þó fór það hæst árið 2015 þegar það var 66%.

Á sama tíma hefur hlutfall háskólastofnana minnkað úr 37% í 31%, þó var það minnst árið 2015 eða 29%. Hlutfall annarra opinberra stofnana hefur einnig dregist saman, úr 7% árið 2013 í 4% 2017.