Yfirmenn hollenska iðnaðarsamsteypunnar Stork komu til fundar við forsvarsmenn LME eignarhaldsfélags og Marels um helgina. Hófst sá fundur á laugardag og var þar reynt að nálgast niðurstöðu í þeim mikla slag sem verið hefur um yfirráðin í Stork á milli fjárfestingarfélagsins Candover og LME. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var þar m.a. rætt um hvort LME komi að yfirtöku á Stork samstæðunni allri eða kaupi Stork Food Systems eininguna út úr samsteypunni.

Viðræðum mun hafa miðað vel og er ætlunin að reyna að fá niðurstöðu í málinu fyrir miðjan mánuðinn, eða vel áður en framlenging á yfirtökutilboði Candover rennur út 18. september. Yfirtökutilboðið átti upphaflega að renna út 4. september, en ef samkomulag næst ekki útilokar LME ekki að leggja sjálft fram yfirtökutilboð í samsteypuna.

Ljóst hefur verið allan tímann að LME eignarhaldsfélag ehf. sem á nú 43% hlut í Stork, ætlaði ekki að samþykkja tilboð Candover upp á 47 evrur á hlut. Það flækir líka málið að Candover mun eiga í vandræðum með að fjármagna yfirtökuna. Þarf félagið væntanlega að gera breytingar á lánasamningum sem það hafði gert við lánastofnanir vegna fyrirhugaðrar yfirtöku. Þar spilar m.a. inn í vandi stóru bankanna vegna undirmálslána (e. sub prime loans) sem þeir hafa ekki ráðið við. Virðist því ljóst að yfirtaka kemur ekki til með að eiga sér stað nema með einhverskonar samráði eða samstarfi við LME.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.