Fyrir tveimur árum hóf evrópski seðlabankinn að rukka neikvæða stýrivexti á innlán en þó hingað til hafi almenningur ekki þurft að greiða neikvæða vexti, hafa fyrirtæki þurft þess víða.

Fyrsti bankinn byrjaður að rukka almenna innlánsreikninga

Í vikunni hóf þó lítill sparisjóður í bæversku þorpi að rukka almenna innlánseigendur sem eiga sparnað umfram 100.000 evrur um 0,4% í gjald fyrir að geyma peninga þeirra.

„Viðskiptavinir okkar á meðal fyrirtækja hafa lengi þurft að borga neikvæða vexti, af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi fyrir einkaaðila sem eiga háar fjárhæðir?,“ sagði Josef Paul, bankaráðsmaður í sparisjóðnum í viðtali við Bloomberg fréttastofuna .

Eiga að hvetja til eyðslu og fjárfestinga

Ætlunin með neikvæðu vöxtunum var að hvetja til eyðslu og fjárfestinga, ekki að refsa sparneytnum Þjóðverjum, sagði bankastjóri seðlabankans, Mario Draghi, að ákvörðunin væri fyrir „bankana, ekki fólkið.“ Ef bankarnir myndu ákveða að færa byrðina yfir á innistæðueigendur, þá væri það þeirra ákvörðun, ekki seðlabankans.

Síðan þá hefur evrópski seðlabankinn lækkað vextina, það sem bankar borga seðlabankanum fyrir að geyma fé sitt hjá honum, þrisvar til viðbótar. Hingað til hafa ekki verið af því neinar neikvæðar afleiðingar, eins og að viðskiptavinir taki féð sitt út úr bönkum og geymi það annars staðar. Á þessum tíma hafi lánveitingar bankanna á ný vaxið.

Hagvöxtur hægir á sér

Áhættan sem nú liggur fyrir er að hinir neikvæðu vextir fari að færa sig yfir í raunhagkerfið, áður en hagvöxtur taki almennilega við sér.

Hagvöxtur á evrusvæðinu hægði á sér á öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem gerir hagkerfi þess viðkvæmt við áföllum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Undantekning eða það sem koma skal?

Nú er bara spurningin hvort ákvörðun litla sparisjóðsins sé undantekning, og að almennt muni vextir fyrir almenna innlánsreikninga ekki fara niður fyrir núllið, eða hvort aðrir bankar fylgi í kjölfarið.

Þýski seðlabankinn, Bundesbank, reiknaði út á síðasta ári að í því lágvaxtaumhverfi sem nú sé, þá muni hagnaður þýskra banka fyrir skatt minnka um fjórðung til ársins 2019.