Um áramótin verða fjölmargir notendur heimabanka rukkaðir fyrir innskráningu þegar notkun svokallaðra auðkennislykla verður hætt.

Munu viðskiptavinir þurfa að greiða 14 til 15 krónur fyrir hverja innskráningu með rafrænum skilríkjum, ef þeir eru viðskiptavinir Nova og Vodafone að því er kemur fram í frétt Neytendasamtakanna.

Standa einnig leið án kostnaðar til boða

„Viðskiptavinum Íslandsbanka mun þannig standa til boða að fá annars vegar sent auðkennisnúmer með sms-i, þeim að kostnaðarlausu, eða skrá sig inn í netbankann með rafrænum skilríkjum og greiða fyrir það 14 krónur ef þeir eru í viðskiptum hjá Nova og 15 krónur ef þeir eru í viðskiptum hjá Vodafone (frá og með desember),“ segir í frétt samtakanna, en sama gildir um Arion banka.

Hins vegar rukkar Síminn ekki fyrir notkun rafrænna skilríkja og Landsbankinn hefur þegar hætt notkun auðkennislyklanna og þess í stað tekið upp öryggiskerfi sem byggir á notendanafni og lykilorði, svo innskráningin verður gjaldfrjáls nema viðskiptavinir hans kjósi að nota rafrænu skilríkin.

Auðkenni er í eigu bankanna, Símans og Teris

Fyrirtækið sem bíður fólki upp á rafræn skilríki í síma, Auðkenni, er í eigu viðskiptabankanna þriggja auk Símans og Teris.

„Neytendasamtökin hafa ítrekað gagnrýnt gjaldtöku vegna rafrænna skilríkja. Einnig mótmæltu samtökin því þegar stjórnvöld notuðu „skuldaleiðréttinguna“ svokölluðu til að knýja á um að neytendur fengju sér rafræn skilríki,“ segir í frétt samtakanna.

„Það var ákveðið  fagnaðarefni þegar Auðkenni, sem annast um rafræn skilríki, tók þá ávörðun að fresta gjaldtöku.

Fjárhagslega hagræðið vegur upp á móti kostnaði fyrirtækjanna

Það er sjónarmið Neytendasamtakanna að fjárhagslegt hagræði þeirra aðila sem krefjast þess að neytendur hafi rafræn skilríki sé það mikið að þeim beri að greiða þann kostnað sem af hlýst.

Neytendasamtökin hafna því alfarið að fjármálastofnanir og símafyrirtæki láti neytendur borga brúsann þegar verið er að innleiða fyrirkomulag sem leiðir til hagræðingar og kostnaðarsparnaðar hjá fyrirtækjunum sjálfum.

Sé um það að ræða að símfyrirtæki lendi í kostnaði vegna rafrænna skilríkja ber að senda þann reikning til fjármálafyrirtækja og annarra sem hagnast af notkun slíkra skilríkja því það er fráleitt að að neytendur greiðið þann reikning.“