Tekjujöfnuður ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins nemur 39,6 milljörðum króna sem er 25,7 milljörðum króna umfram áætlun tímabilsins. Ef hins vegar er tekið tillit til frávika vegna fjárheimildastöðu fyrra árs, arðgreiðslna umfram áætlanir og vaxtagjalda við uppgreiðslu á erlendu skuldabréfi þá er tekjujöfnuður um 1,9 milljarði króna undir áætlun tímabilsins.

Tekjur tímabilsins án fjármunatekna námu 561,4 milljörðum króna eða 7,8 milljarðar umfram áætlun. Tekjur stofnana eru um 10,7 milljarðar króna yfir áætlun sem skýrist af tæknilegum þáttum og af innbyrðis færslum sem ekki er lokið við að leiðrétta fyrir segir á vef stjórnarráðsins.

Gjöld tímabilsins án fjármagnsgjalda eru 508,9 milljarðar króna eða um 8,6 milljörðum yfir áætlun. Ef tekið er tillit til fjárheimildastöðu frá fyrra ári eru gjöldin hins vegar um 11 milljörðum undir áætlun. Tekjur umfram gjöld eru 52,6 milljörðum króna eða 18,8 milljörðum króna yfir áætlun.

Meiri arðgreiðslur en gert var ráð fyrir

Fjármagnsjöfnuður tímabilsins er neikvæður um 12,9 milljarða króna sem er 6,9 milljörðum yfir áætlun tímabilsins. Fjármagnstekjur nema 42,8 milljörðum króna eða 13,5 milljörðum yfir áætlun sem skýrist aðallega af meiri arðgreiðslum af eign ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka en gert var ráð fyrir.

Fjármagnsgjöld nema 55,8 milljörðum króna og eru 6,6 milljörðum króna yfir áætlun sem skýrist að mestu af nettó 10,9 milljarða kostnaði sem féll til vegna uppkaupa á erlendri skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs á vormánuðum. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 51 milljarð króna, afborganir lána námu 219 milljörðum og lækkar handbært fé um 116,7 milljarða króna.

Fjárheimildir frá fyrra ári nema samtals 19,6 milljörðum króna og eru til bráðabirða inni í fjárheimildum, en endanlegur flutningur fjárheimilda milli ára bíður staðfestingar Alþingis í lokafjárlögum ársins 2016 að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Útgjöld málefnasviða að frádregnum rekstrartekjum námu 521,2 milljörðum króna og voru 4,5 milljörðum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir innan fjárheimilda ársins, en 15,1 milljörðum króna lægri en áætlað var ef tekið er tillit til höfuðstóls fyrra árs.

Megin frávik innan ársins eru á eftirfarandi málefnasviðum:

  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla innanríkismála eru um 2,1 milljörðum króna umfram áætlun.
  • Háskólastigið er 2,6 milljarði króna innan fjárheimilda.
  • Lyf og lækningavörur 1,9 milljarði króna umfram áætlun.
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks er 2,2 milljörðum króna umfram áætlun.
  • Fjölskyldumál eru 1,4 milljarði innan fjárheimilda
  • Vextir, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar 7,4 milljörðum króna umfram áætlun.