Í febrúar var mesta hækkun á hlutabréfamarkaði á gengi bréfa í Nýherja, eða 20,2% í tæplega 884 milljóna króna viðskiptum.

Hlutabréf í Marel fylgja þar fast á eftir með 20,1% hækkun í 17,6 milljarða króna viðskiptum, en mest var veltan með hlutabréf í Marel. Mesta lækkunin var á bréfum Icelandair Group eða 11,3% í tæplega 13,1 milljarða viðskiptum.

Úrvalsvísitala (OMXI8) Kauphallarinnar hækkaði um 0,3% í febrúar og nam heildarvelta með hlutabréf 85,2 milljörðum króna, sem jafngildir tæplega 4,3 milljörðum á dag.

Á skuldabréfamarkaði hækkaði aðalvísitala skuldabréfa um 0,3% í febrúar. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar hækkaði um 1,9% og sú verðtryggða lækkaði um 0,4%.

Heildarviðskipti á skuldabréfamarkaði námu 85 milljörðum, sem samsvarar 4,3 milljarða veltu á dag. Þetta er 9% hækkun frá því í janúar en 17% lækkun milli ára.