Rúnar Bjarnason, löggiltur endurskoðandi, er kominn í hóp eigenda PwC. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rúnar er forstöðumaður PwC á Norðurlandi og er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er með meistaragráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands auk þess að hafa hlotið löggildingu til endurskoðunarstarfa.

„Ég er þakklátur því trausti sem mér er sýnt að vera tekinn inn í eigendahóp PwC. Hér á Norðurlandi eru afar spennandi tímar framundan og munum við leggja okkur fram við að veita gömlum og nýjum viðskiptavinum PwC framúrskarandi þjónustu, hér eftir sem hingað til“ segir Rúnar.

Rúnar hóf störf hjá PwC árið 2008 og hefur gegnt ýmsum störfum tengdum endurskoðun hjá félaginu og tók við nýju starfi sem forstöðumaður PwC á Norðurlandi í apríl á síðasta ári. Eiginkona Rúnars er Harpa Samúelsdóttir lögfræðingur og eiga þau tvö börn.