Rússar hvetja Donald J. Trump, forseta Bandaríkjanna, til þess að standa við kosningaloforð sitt um að bæta samskipti milli Bandaríkjanna og Rússlands. Frá þessu er greint í frétt Bloomberg . Hvíta húsið hefur kallað eftir því að Rússar láti Krímeu eftir til Úkraínumanna.

Vyacheslav Volodin, þingforseti Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, hefur sent frá sér skeyti þar sem kemur fram að Rússar hygðust bíða eftir athugasemdum frá Trump sjálfum um málið og að „allt yrði í himnalagi,“ ef að Trump myndi framfylgja því sem hann lofaði í kosningabaráttunni, þ.e. að taka upp eðlilegri samskipti við Rússa.

Talsmaður Kremlin, Dmitry Peskov sagði að samskipti kosningateymis Trump við rússenska embættismenn hafi verið eðlileg diplómatísk samskipti og þvertekur fyrir að kosningateymi Trumps hafi átt samskipti við rússneska njósnara. Eins og áður hefur verið greint frá sagði Michael Flynn, af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna ásakana um að hann hefði rætt refsiaðgerðir Bandaríkjanna á hendur Rússum við sendifulltrúa landsins áður en Trump tók við embætti.

Komið hefur í ljós að skrár yfir símtöl ásamt upptökum sýna að liðsmenn kosningabaráttu Trump hefðu haft endurtekin samskipti við valdamikla menn í rússnesku leyniþjónustunni í heilt ár fyrir kosningarnar. Eins og svo oft áður hefur Trump ekki verið feiminn við að tjá sig um málið á Twitter síðu sinni;