Alexander Tkachyov, landbúnaðarráðherra Rússlands hefur tilkynnt um að matvæli frá Tyrklandi muni fara í gegnum umfangsmikla skoðun við landamæri Rússlands en hann segir m.a. að matvælin standist ekki kröfur Rússa. Talsmaður ríkisstjórnar Rússlands hefur einnig sagt að þetta sé ekki innflutningsbann, heldur einungis skoðanir sem séu nauðsynlegar í ljósi óútreiknanlegra aðgerða Tyrklands.

Landbúnaðarráðuneyti Rússlands hefur einnig sagt að um 15% af þeim matvælum sem flutt eru inn frá Tyrklandi standist ekki kröfur Rússa. Tyrkland er stærsti innflytjandi á ávöxtum til Rússlands, en markaðshlutdeild þeirra er um 15 til 20%.

Hafnar því að hann þurfi að biðjast afsökunnar

Aðgerðir Rússlands eru teknar í kjölfar þess að Tyrkland skaut niður rússneska orustuþotu á þriðjudaginn síðastliðinn. Vladimir Putin, forseti Rússlands, sagði að þetta væri óútskýrð svik frá landi sem Rússland hafi talið vera bandamenn sína í baráttunni gegn hryðjuverkum. Putin hefur krafist þess að Tyrkir biðjist afsökunnar á því að hafa skotið þotuna niður en forseti Tyrklands Recep Tayyip Erdogan hefur hafnað því og sagt að þeir sem ættu að biðjast afsökunar væru þeir sem hefðu í óleyfi farið inn í lofhelgi Tyrklands.