Rússar hyggjast auka framleiðslu á sjávarafurðum heima fyrir úr 4,4 milljónum tonna í 5 milljónir tonna á næstu tveimur árum. Miklar ráðagerðir eru um stóraukna vinnslu heima fyrir, jafnt á bolfiski og uppsjávartegundum, eru plönin sögð njóta stuðnings Pútíns Rússlandsforseta.

Áður hefur verið greint frá því í Fiskifréttum að Rússar eru stórhuga í þessum efnum og ætla sér að verða sjálfbærir í framleiðslu á sjávarafurðum fyrir heimamarkað með stóraukinni vinnslu. Þetta dregur að sjálfsögðu úr möguleikum fiskframleiðenda hér á landi að eiga viðskipti við landið og virðist síður benda til þess að Rússar falli frá innflutningsbanni á sjávarafurðum frá Evrópu í bráð. Rússar hafa löngum verið stærstu innflytjendur á sjávarafurðum í Evrópu.

Stærstur hluti ufsaafla Rússa hefur verið unninn í kínverskum verksmiðjum. Á sjávarútvegssýningunni í Brussel sagði Petr Savchuk, aðstoðarforstjóri sjávarútvegsstofnunar Rússlands, að „tímamót“ væru á næsta leiti í rússneskri fiskvinnslu. Hann sagði að önnur ástæða þess að svo mikil áhersla væri lögð á að vinna fiskinn í Rússlandi væru strangar reglur þar í landi sem lúta að notkun kemískra efna við vinnslu. Hann segir að sú staðreynd að þessar áætlanir njóta stuðnings Pútín Rússlandsforseta auki stórlega líkurnar á því að þær verði að veruleika.

Ræða Savchuks boðar erfiða tíma fyrir kínverska fiskframleiðendur sem standa nú frammi fyrir stóraukinni samkeppni á erlendum mörkuðum. Kínverjar hafa unnið mest allra þjóða af ufsaafla Rússa og eru með gríðarstórar fiskvinnslumiðstöðvar í borgum í Norður-Kína þar sem liggja nærri rússneskri fiskveiðilögsögu.

Til viðbótar við aukna vinnslu heima fyrir hyggjast Rússar setja framþróun í fiskeldi í forgang. Fimmtán nýjar laxeldisstöðvar eru hluti af framrás þeirra á þessu sviði. Miklar fjárfestingar verða einnig á sviði makrílvinnslu og vinnslu á sardínu.