Rússnesk hlutabréf hafa tekið stökk í kjölfar þess að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Til að mynda hefur Micex vísitalan rússneska hækkað um 14% í kjölfar kosninganna í síðasta mánuði.

Hækkanirnar í Rússlandi eru meiri en í Bandaríkjunum en þar hafa helstu vísitölur þó einnig hækkað talsvert. S&P 500 hefur hækkað um 6% og Dow vísitalan um 8,5% síðan Trump sigraði Clinton í kosningunum.

Trump hefur talað opinskátt um það að vilja bæta samskipti Bandaríkjanna við Rússland. Leitt er líkum að því að vingjarnleg samskipti Trumps við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, sé líklegasta skýringin á þessum miklu hækkunum á rússneskum mörkuðum. Einnig hefur hærra olíuverð haft jákvæð áhrif á markaði, en nýverið sömdu OPEC ríkin, ásamt Rússum og öðrum olíuframleiðendum um að minnka framboð á olíu.

Gengi hlutabréfa rússneska olíurisans Gazprom hækkuðu um 12% frá því Trump var kjörinn í síðasta mánuði og einnig hefur gengi bréfa Lukoil hækkað um 15% og Rosneft um 20%. Efnahagur Rússlands á talsvert undir olíu- og gasfyrirtækjum, en þó hafa önnur fyrirtæki á markaði einnig hækkað. Til að mynda hefur gengi bréfa bankans Sberbank og leitarvélarinnar Yandex hækkað talsvert á síðasta mánuði.

Líklegt er að fjárfestar hafi talsverða tiltrú á því að rússneski efnahagurinn fái nú endurnýjun lífdaga eftir að hafa dregist saman á síðasta ári. Talið er að hann komi til með það að vaxa eilítið á næsta ári, eftir að hafa dregist saman í fyrra.