*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 27. mars 2018 08:32

RÚV fékk 2 milljarða fyrir lóðir

Framlag ríkisins til RÚV jókst um 8,6% á milli ára eða 327 milljónir, en rekstrarafgangurinn nam 201 milljón árið 2017.

Ritstjórn
Magnús Geir Þórðarson er útvarpsstjóri RÚV ohf.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Rekstrarafgangur RÚV á síðasta ári reyndist vera 201 milljón en tekjur félagsins skiptast annars vegar í 4.129 milljónir króna fyrir almannaþjónustu sem koma þá væntanlega frá ríkinu, en um er að ræða aukningu um 8,6% frá fyrra ári eða 327 milljónir króna.

Hins vegar eru síðan eru 2.322 milljónir sagðar koma frá samkeppnisrekstri, þá væntanlega aðallega auglýsingatekjur þó ekki sé það tekið fram í ársreikningi félagsins nánar. Það er aukning um 3,8% eða 86 milljónir. Heildartekjuaukningin nam því 6,8% eða 413 milljónum króna milli ára.

Byggingarréttur skilaði 1.966 milljónum

Rekstrarhagnaður vegna endanlegs uppgjörs á sölu á byggingarrétti nam 174 milljónum króna sem leiðir til þess að heildarhagnaður ársins fyrir skatta nam 321 milljónum króna. Þessi viðbótarfjárhæð kemur ofan á söluhagnaðinn sem var að mestu færður til bókar árið á undan, en samtals nemur hann því 1.966 milljónum króna.

Leiðir salan á byggingarréttinum til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins en hagnaður ársins er nýttur í sama tilgangi segir í fréttatilkynningu. Rekstrarafgangurinn var einnig nýttur til greiðslu skulda. Langtímaskuldir félagsins nema 3.276 milljónum króna, og voru greiddar nettó um 165 milljónir í afborganir af þeim sem hluti af rekstri.

Eiginfjárhlutfall félagsins hefur batnað mikið á síðustu þremur árum og hækkar nú úr 23,8% í 26,1%. Rekstrargjöld án afskrifta voru 5.643 milljónir króna en 5.414 milljónir árið 2016. Afskriftir voru 316 milljónir króna samanborið við 308 milljónir árið 2016. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 292 milljónir króna en 221 milljónir króna árið áður og munar þar mestu um gengisþróun krónunnar.

Heildareignir 8,4 milljarðar

Heildareignir félagsins í lok árs 2017 námu 8.379 milljónum króna, eigið fé var 2.190 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 26,1% en var 23,8% í lok árs 2016. Eiginfjárhlutfall hefur hækkað mikið að undanförnu en það var 5,5% í lok rekstrarársins 2013-2014.

Hagnaður af sölu byggingarréttar var að mestu leyti færður í ársreikning vegna ársins 2016. Tekjur af þessari sölu byggjast á endanlegu byggingamagni á lóðinni og lá það fyrir í byrjun árs 2018. Heildarsöluverð er 1.966 milljónir króna, sem er umtalsvert meira en varlegar áætlanir RÚV höfðu gert ráð fyrir í upphafi.

Stöðugildi voru að meðaltali 260 á árinu en fjöldi þeirra hefur verið svipaður frá árinu 2015 eftir mikla fækkun á misserunum þar á undan. Útvarpsgjald var lækkað á nokkurra ára tímabili ásamt því að möguleikar á öflun tekna í gegnum sölu auglýsinga og kostana var takmarkaður.

Þjónustusamningur rennur út á næsta ári

„Jákvæð niðurstaða ársins 2017 er sérstaklega ánægjuleg vegna þess að þetta er þriðja rekstrarárið í röð þar sem RÚV skilar hallalausum rekstri eftir umbótaferli, skipulagsbreytingar og markvisst hagræðingastarf frá árinu 2014 í kjölfar lækkunar útvarpsgjalds,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.

„Þjónustusamningur RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem gildir til ársloka 2019 hefur skapað nauðsynlegan fyrirsjáanleika varðandi tekjur og skyldur RÚV til næstu ára.“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður stjórnar RÚV fagnar áframhaldandi jákvæðri rekstrarafkomu:
„Nýrri stefnu og skipulagi er ætlað að festa í sessi þessar jákvæðu breytingar og skapa svigrúm fyrir öflugri dagskrá og skarpari almannaþjónustu.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim