Þrír íslenskir fjölmiðlar geta búist við málsókn vegna umfjöllunar sinnar um eignarhald Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og eiginkonu hans á aflandsfélaginu Wintris. Sigmundur segist hafa fyrir nokkru síðan falið lögfræðingum að kanna grundvöll slíkrar málsóknar að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Það verður að bíða fram yfir kosningar en undirbúningsvinnan er hafin. Því það eru takmörk fyrir því hvað maður getur lengi setið undir hreinum ósannindum, áróðri sem er farinn út yfir öll mörk, ekki bara velsæmismör, heldur mörk alls sem á nokkuð skylt við sannleikann,“ segir Sigmundur sem undirbýr nú framboð Miðflokksins sem hann hefur nýlega stofnað.

Fyrirsagnir hrein lygi

„Sumir halda áfram og kunna ekki að skammast sín og slá upp fyrirsögnum sem eru hrein lygi, eins og ég hef séð á netinu í dag [í gær]. Sigmundur Davíð segist hafa sent útvarpsstjóra opið bréf á sínum tíma og farið fram á afsökunarbeiðni. „Því var svarað með tómum skætingi,“ segir Sigmundur sem segir augljóst af svarinu að bréfið hafi ekki einu sinni verið lesið.

„Ég var alltaf að vonast til þess að menn sæju að sér eftir því sem málin skýrðust.“ Sigmundur segir að svarið hafi í raun einungis verið endurunnið svar frá fréttastjóra sem notað hafi verið skömmu áður.

„Auðvitað gengur ekki að svona stór og mikilvæg stofnun, sem haldið er uppi af skattgreiðendum, komist upp með svona framgöngu án þess einu sinni að vera reiðubúin að skoða málið, hvað þá að biðjast afsökunar,“ segir Sigmundur.

„Við höfum séð fleiri dæmi um það að undanförnu að þar á bæ virðist mönnum algjörlega fyrirmunað að biðjast afsökunar á nokkrum hlut.“ Sigmundur vill ekki nafngreina þá þrjá fjölmiðla sem um ræðir, en í fréttinni er ryfjað upp að auk RÚV unnu Stundin og Kjarninn upp úr gögnum lögmannstofunnar Mossack Fonseca á Panama í samstarfi við Reykjavík Media.