Meirihluti fjölmiðlanefndar sem skilaði skýrslu um stöðu og starfsumhverfi fjölmiðla í gær leggur til að Ríkisútvarpið fari sem fyrst af auglýsingamarkaði. Þannig verði samkeppni ríkisins við einkarekna fjölmiðla á markaði fyrir auglýsingar stöðvuð, hvort tveggja í sjónvarpi sem og í útvarpi.

Í skýrslunni kemur fram að auglýsingamarkaðurinn velti um 11 milljörðum króna á ári, en auglýsingatekjur RÚV á árinu 2016 námu um 2,2 milljarðar króna, eða um fimmtungur allra auglýsingatekna í landinu.

„Ef hlutdeild RÚV er skoðuð út frá starfsemi, þ.e. auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi, var RÚV með 44% birtingarfjár í þá miðla árið 2016,“ segir jafnframt í skýrslunni. „Það liggur því fyrir að RÚV fær tæplega helming tekna á markaði með auglýsingabirtingar í hljóðvarpi og sjónvarpi.“