Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að sekta RÚV vegna brots gegn áfengislögum vegna auglýsingar Ölgerðarinnar sem RÚV sýndi í október á síðsta ári.

Fjölmiðlanefnd barst kvörtun frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum. Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingin hafi vísað til vörutegundar Egils Gull sem er með 5% áfengisinnihald, en ekki léttöl með 2,25% innihald. Niðurstaðan var meðal annars byggð á því að í auglýsingunni var sérstaklega talað um verðlaun sem varan með 5% áfengisinnihaldið fékk.

„Í auglýsingunni sé því í raun ekki vísað til vörutegundar sem hafi minna en 2,25% áfengisinnihald, heldur vörutegundar sem hlaut verðlaun World Beer Awards árið 2011 og hafi 5% áfengisinnihald. Vísað sé til verðlaunanna með tvennum hætti; með birtingu mynda af verðlaunapeningum og með skjátextanum „World‘s Best Standard Lager“. Jafnframt sé ljóst að drykkurinn Egils Gull, sem hlaut áðurnefnd verðlaun WBA árið 2011, sé áfengur bjór með 5% áfengisinnihaldi en ekki léttöl með 2,25% áfengisinnihaldi.“

Fjölmiðlanefnd talaði einnig um að ekki væri hægt að fá umræddan bjór undir 2,25% á glerflöskum eins og sýndar voru í auglýsingunni. RÚV hafnaði því og bauðst til að senda fjölmiðlanefnd slíkar flöskur til sönnunar. Í samskiptum fjölmiðlanefndar við Ölgerðina kom hins vegar fram að Ölgerðin hafi „aldrei framleitt og boðið Egils Gull léttöl í glerflöskum til sölu á markaði.“

Fjölmiðlanefnd lagði því stjórnvaldssekt á RÚV sem nemur 250 þúsund krónum.