Ríkisútvarpið mun hefja útsendingar á nýrri útvarpsstöð í sumar en hún mun bera nafnið Rás 3. Vísir greinir frá þessu. Þar kemur fram að rætt hafi verið um stofnun útvarpsstöðvarinnar í nokkur ár og hún yrði ætluð yngra fólki.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, stofnaði nýlega starfshóp sem ætlað er að kafa ofan í rekstur Ríkisútvarpsins ohf. frá stofnun fyrirtækisins á miðju ári 2007 og er honum ætlað að greina fjárhagsvanda þess. Ekki kemur fram hve mikil útgjöld stofnun nýrrar útvarpsstöðvar mun hafa í för með sér fyrir fyrirtækið.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, tekur þessum tíðindum ekki vel en um þau segir hún á Facebook-síðu sinni: „Er 1. apríl ekki liðinn?“