*

föstudagur, 18. janúar 2019
Erlent 11. september 2018 19:01

Ryanair bannar blaðamenn

Lágfargjaldaflugfélagið mun ekki leyfa blaðamönnum að vera viðstaddir á næstu hluthafafundi.

Ritstjórn
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair.
epa

Írska lágfargjaldaflugfélagið Ryanair greindi frá því í gær að engum blaðamönnum yrði veittur aðgangur að hluthafafundi félagsins sem fram fer í næstu viku. Þetta kemur fram í frétt CNN. Félagið hefur hingað til veitt blaðamönnum aðgang að fundunum auk þess sem forstjóri félagsins, Michael O'Leary hefur haldið blaðamannafundi eftir á. 

Þrátt fyrir að það séu enginn lög sem skikki skráð félög til þess að veita fjölmiðlum aðgang að hluthafafundum leyfa flest þeirra aðgengi. Samkvæmt CNN er ástæðan sú að stjórnendur Ryanair óttast að þeir munu fá yfir sig mikið af óþægilegum spurningum en fréttir af félaginu síðustu misseri hafa síður en svo verið jákvæðar. 

Hlutabréfaverð Ryanair hefur lækkað um ríflega 30% frá því í júlí. Þá hafa verkföll flugmanna og flugumferðarstjóra og aukinn kostnaður vegna hækkandi olíuverðs sett mark sitt á rekstur fyrirtækisins síðustu mánuði. 

Stikkorð: Ryanair