Örn Arnarsson sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja segir áhugavert að þeir stjórnmálamenn sem mest tali um þörfina á því að klára endurskipulagningu fjármálakerfisins eru einmitt þeir sem hafi einmitt verið önnum kafnastir við endurskipulagninguna síðustu ár.

„Þessi endurskipulagning hefur falist í vinnu stjórnvalda við innleiðingu á um fjörutíu viðamiklum tilskipunum ESB sem snerta flesta þætti fjármálamarkaða,“ segir Örn í pistli í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni Endurskipulagningunni er löngu lokið .„Þessar tilskipanir eru bein afurð þeirrar miklu endurskoðunarvinnu sem hófst í kjölfar fjármálakreppunnar og er ætlað að sníða af þá vankanta sem komu svo glögglega í ljós aðdraganda hennar.“

Snertir hann einnig á mikilli umfjöllun sem verið hefur um að hægt sé að ná milljarðatugum út úr bankakerfinu og segir hann upphæðina í raun ekki vera nema 70 til 100 milljarða. Eins og Viðskiptablaðið hefur bent á er þegar gert ráð fyrir 140 milljörðum í arðgreiðslum úr bönkunum í fjármálaáætlun næstu ára sem samþykkt var á Alþingi á vordögum.

Jafnframt bendir hann á að þær séríslensku reglur sem til viðbótar ESB reglunum sem þessir stjórnmálamenn hafi sett bitni á viðskiptavinum fjármálastofnananna sem og rýri virði eignarhlutar ríkisins í bönkunum.

„Varðandi það síðarnefnda þá lækkar bankaskatturinn, fjársýsluskatturinn og sérstakur fjársýsluskattur virði bankanna um 280 milljarða,“ segir Örn sem jafnframt bendir á að með nýrri tilskipun muni reyna enn meira á samkeppnisfærni bankanna.

„Innleiðing PSD II-tilskipunarinnar mun höggva stór skörð í viðskiptabankatekjur hefðbundinna fjármálafyrirtækja. Samkeppni um veitingu fjármálaþjónustu mun harðna með tilkomu nýrra aðila á borð við fjártæknifyrirtækja (e. fintech) inn á markaðinn.“