Áhrif viðskiptabanns Rússa og lokun Nígeríumarkaðar á byggðarlög í landinu eru mismunandi en tekjutap sjómanna og landverkafólks við uppsjávarveiðar og vinnslu vegna viðskiptabanns Rússa hafa verið metin 1-2,5 milljarða króna á ársgrundvelli. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins .

Efnahagssvið SA hefur metið áhrif viðskiptabannsins á þjóðarbúið á bilinu 11-17 milljarða króna en hlutfallslega hefur bannið mest áhrif á Ísland af löndum EES. Lokun Nígeríumarkaðar gæti einnig leitt til um 6 milljarða samdráttar í útflutningsverðmætum en landið er helsti markaður Íslendinga fyrir þurrkaðar afurðir.

Lakari heimshagvöxtur gæti einnig haft sín áhrif en fyrir hverja prósentu lækkun á heimsmarkaðsverði á fiski dragast útflutningsverðmæti saman um 2,4 milljarða króna. Lækkun olíuverðs hefur þó að sama skapi dregið verulega úr olíukostnaði útgerða og er hann nú um 6,5 milljörðum lægri en í fyrra.

Heildaráhrif þessara þátta á þjóðarbúið eru skv. útreikningum efnahagssviðs SA neikvæð um á bilinu 16-21 milljarði króna eða sem nemur um 0,7%-0,9% af landsframleiðslu.