Samtök atvinnulífsins segja að ekki megi rekja ástæðu þess að verðbólga hefur nú farið í fyrsta skipti yfir markmið Seðlabankans síðan 2014 til aukinnar þenslu í þjóðarbúskapnum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær fór verðbólgan upp í 2,8% með húsnæðislið í gær, en án hans er um 0,3% verðhjöðnun að ræða.

Segja samtökin að ástæða verðbólgunnar nú sé fyrst og fremst vegna framboðsskorts á húsnæði. Benda þau á að allir undirliðir að undanskildu húsnæði lækki minna eða til jafns við verðbólgumarkmiðið sem er 2,5%.

Jafnframt bera samtökin saman verðhækkanir nú, sem komu mikið til vegna útsöluloka, við sama tíma í fyrra. Helsti munurinn er sá að olíuverð lækkar ekki eins og í fyrra auk þess sem heldur minni gengisstyrking er nú en þá.

Niðurstaða SA er því sú að þar sem íslensk peningastefna hafi engin áhrif á heimsmarkaðsverð olíu myndi vaxtahækkun nú frekar auka framboðsvanda húsnæðis enn frekar með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs.