David M. Zaslav, forstjóri fjölmiðlasamsteypunnar Discovery, var launahæsti forstjóri félaga í S&P 500 vísitölunni, árið 2018. Þetta kemur fram í samantekt WSJ . Zaslav fékk greiddar 124 milljónir dollara, sem samsvara um 15,9 milljörðum króna, sem samsvarar 206% launahækkun milli ára.

Discovery rekur sjónvarpsstöðvar á borð við Discovery, Animal Planet, Science Channel, TLC, HGTV, Travel Channel og Food Network. Discovery segir launahækkunina næstum alla vera vegna kaupréttarsamninga sem tengist góðri afkomu félagsins en hlutabréfaverð þess hækkaði um 10,5% á árinu.

Miðgildi launa forstjóranna var 12,4 milljónir dollara um 1,5 milljarða króna. Flestir forstjórarnir fengu yfir 5% launahækkun en að ávöxtun hlutabréfanna félaganna var að jafnaði neikvæð um 5,8%.

Næstur á listanum var Stephen F. Angel, forstjóri Linde, sem fékk 66,1 milljón dollara greidda, en uppistaða þeirra greiðslu er fyrirframgreiddur lífeyrir eftir 18 ára starf hjá félaginu. Sá þriðji launahæsti var Robert A. Iger, forstjóri Disney. Laun hans námu 65,5 milljónum dollara í fyrra. Hart hefur verið tekist á um laun hans. Abigail Disney, einn erfingja Disney veldisins, sagði nýlega að laun hans væru „klikkuð“.

Einungis 20 af 500 forstjórum konur

Launahæsta konan var Mary T. Barra, forstjóri General Motors, sem fékk 22 milljónir dollara greiddar fyrir störf sín í fyrra. Einungis tuttugu konur eru forstjórar hjá félögunum 500 og fækkar þeim um tvær milli ára.

Þeir launalægstu eru Larry Page, forstjóri Alphabet, móðurfélag Google sem Page stofnaði, og Jack Dorsey, stofnandi og forstjóri Twitter. Þeir fengu báðir 1 dollara fyrir störf sín á árinu.