Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, niðurstöðum á föstudaginn. Lagt er til að hámarksgreiðslur foreldris úr Fæðingarorlofssjóði verði 600.000 krónur á mánuði og að tekjur allt að 300.000 króna á mánuði skerðist ekki, líkt og nú er.

Eftir að þessar tillögur voru gerðar opinbera birtu Samtök atvinnulífsins grein á vef sínum. Segjast samtökin leggja áherslu á að fæðingarorlofskerfið verði endurreist í sem næst upphaflegri mynd með hækkun hámarksgreiðslna og að hlutfall viðmiðunartekna verði áfram 80%. Sú aðgerð hefur mest áhrif á töku feðra á fæðingarorlofi en SA telja rétt að báðir foreldrar nýti fæðingarorlof sitt til fulls til samvista með börnum sínum. Þetta segir á vef SA.

„Samtök atvinnulífsins leggjast gegn tillögu meirihluta starfshóps félags- og húsnæðismálaráðherra um að fyrstu 300.000 kr. viðmiðunartekna verði óskertar. Sú framkvæmd flækir kerfið og hefur ekki verið sýnt fram á að sá kostnaðarauki sem tillögunni fylgir muni fremur stuðla að markmiðinu um jafnrétti kynja en hækkun hámarksfjárhæðarinnar. Æskilegra er að nýta þá fjármuni til hækkunar hámarksgreiðslu úr sjóðnum og komast þannig nær fyrra viðmiði. Þá á það ekki að vera hlutverk fæðingarorlofsgreiðslna að stuðla að tekjujöfnun í landinu.

SA geta ekki heldur fallist á þá tillögu meiri hluta starfshópsins að fæðingarorlof vegna barns verði lengt í 12 mánuði með vísan til aukins kostnaðar og lengri fjarveru foreldra frá störfum. Alls óljóst er að slík lenging muni stuðla að jafnrétti kynjanna. SA telja að brúa eigi hið svokallaða umönnunarbil, eftir að núgildandi fæðingarorlofi lýkur, með aukinni dagvistunarþjónustu sveitarfélaga.
Samtök atvinnulífsins telja að fyrirkomulag fjármögnunar verði að liggja fyrir samhliða ákvörðun. Annað sé ábyrgðarlaust. Frekari hækkun tryggingargjalds kemur ekki til álita af hálfu SA."