Samtök atvinnulífsins segja í fréttatilkynningu, að ekki verði lengur skotist undan því að fella úr gildi lagaákvæði sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla.

„Ákvæðið var samþykkt með breytingu á samkeppnislögunum í febrúar 2011 og er mjög óeðlilegt, þ.e. að ef ríkisstofnun hugnast ekki niðurstaða tiltekins máls að hún geti farið í mál við þann sem úrskurðar um ákvarðanir hennar,“ segir í tilkynningunni.

Þá er ákvæðið skaðlegt atvinnulífinu þar sem það lengir málarekstur, eykur óvissu í rekstri fyrirtækja og kostnað. Samtök atvinnulífsins lögðu til árið 2012 að ákvæðið yrði fellt úr gildi og eru SA enn þeirrar skoðunar.

Hættan er alltaf sú að Samkeppniseftirlitið höfði mál fyrir dómstólum hafi úrskurður áfrýjunarnefndar fallið fyrirtækjum í vil. Úrskurðir áfrýjunarnefndar hætta þá að skipta máli og eru einungis til að tefja fyrir endanlegri úrlausn mála.

Þetta þýðir í raun að búið er að taka úr sambandi möguleika fyrirtækja til að ljúka málum á stjórnsýslustigi.“