Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA býst ekki við að ríkið grípi inní fyrst nú horfir til verkfalla, eftir að upp úr slitnaði úr kjaradeilum samtakanna við fjögur verkalýsfélög sem verið hafa í samfloti í viðræðunum.

„Nei, alls ekki, það er aðila vinnumarkaðarins að útkljá þessa kjaradeilu,“ segir Halldór Benjamín, sem segir að samtökin hafi ekki lagt fram viðbótartilboð á borðið á fundinum með Ríkissáttasemjara í dag.

„Því tilboði var hins vegar sérstaklega beint að lægstu tekjum samfélagsins, svigrúminu varið þar að verulegum hluta. Við teljum að við höfum bæði hlustað og brugðist við ákalli verkalýðshreyfingarinnar. Og því eru atburðir dagsins mér mikil vonbrigði, og framvinda næstu vikna getur valdið gríðarlegum kostnaði fyrir þjófélagið í heild, bæði atvinnurekendur og launafólk.“

Halldór Benjamín segir að í kjölfarið hafi viðsemjendur samtakanna, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýst yfir árangurslausum viðræðum.

„Samtök atvinnulífsins lýstu því yfir að grundvöllur nálgunar okkar við alla okkar viðsemjendur væri að reyna að leiða til vaxtalækkunar, koma í veg fyrir uppsagnir á vinnumarkaði, reyna að byggja undir jákvæða kaupmáttarþróun á tímabilinu, og almennt að við færum í launahækkanir sem rúmast innan þess þjóðhagslega svigrúms sem við búum við, nú um stundir,“ segir Halldór Benjamín.

„Í ljósi þessara skilyrða, sem við teljum að skipti öllu máli um þróun efnahagsmála, á komandi misserum, þá stöndum við, við fyrra tilboð okkar.“