Stjórnvöld í Sádí-Arabíu munu ekki breyta peningamálastefnu sinni og munu viðhalda festingu ríyalsins við Bandríkjadal þrátt fyrir að hafa ekki lækkað stýrivexti í kjölfar vaxtalækkunarinnar í Bandaríkjunum í síðustu viku. Þrátt fyrir að orðrómur um slíkt hafi meðal annars stuðlað að lækkun dalsins undanfarið hefur Dow Jones-fréttastofan eftir ónafngreindum heimildarmanni innan stjórnkerfisins að breytingar á peningamálastefnu séu ekki að dagskrá.

Verðbólga í landinu er 3,6 og hefur ekki verið hærri og talið er að örðugt verði að viðhalda fastgengisstefnu gagnvart dalnum lækki vextir í Bandaríkjunum enn frekar.