Nú hafa Sádí-Arabar, nánar tiltekið konungsríki þjóðarinnar, fjárfest í bandaríska leigubílafyrirtækinu Uber fyrir 3,5 milljarða Bandaríkjadala eða 423 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í fréttaveitu Bloomberg .

Fjárfestingin gengur út frá áður ákveðnu virði Uber, sem er 62,5 milljarðar Bandaríkjadala eða rúmlega 7.500 milljarðar íslenskra króna. Þetta er stærsta einstaka fjárfestingin í fyrirtækinu til þessa.

Yasir Alrumayyan, forstöðumaður stýringar hins opinbera fjárfestingasjóðs Sádí-Araba, mun taka sæti í stjórn Uber, sem staðsett er í Kaliforníuríki. Sjóðurinn sem um ræðir er um 200 milljarðar Bandaríkjadala að stærð.

Sádí-Arabar hyggjast auka við eignir sínar í öðrum löndum en sínu eigin - en langtímamarkmið þeirra er að venja þjóðarefnahaginn af olíuframleiðslu - sem þeir sjá fram á að verði tiltölulega óarðbær í framtíðinni.