Orkustofnun tók þann 2. mars á móti umsókn Navitas ehf. um rannsóknarleyfi á afmörkuðum vatnasvæðum norðan Steingrímsfjarðar í Kaldrananeshreppi og á svæði á hálendinu, sunnan Reykjafjarðar og Veiðileysu, í Strandabyggð. Tilkynning þessa efnis birtist í Lögbirtingablaðinu.

Í umsókninni er sótt um rannsóknarleyfi til 7 ára, til að kanna og rannsaka mögulega virkjunarkosti á svæðinu á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Rannsóknarleyfi felur í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar og fylgja að öðru leyti þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögum, nr. 57/1998, og Orkustofnun telur nauðsynlega. Rannsóknarleyfi felur ekki í sér framkvæmdaleyfi eða heimild til virkjunar eða annarrar auðlindanýtingar.