Innlendir sælgætisframleiðendur seldu sælgæti fyrir 6,4 milljarða króna á síðasta ári og jókst veltan um þriðjung milli ára. Samanlagður hagnaður sælgætisgeirans nam rúmlega 473 milljónum króna, en árið á undan var hagnaðurinn um 140 milljónir. Undanfarin fjögur ár hefur hagnaður fyrirtækjanna tæplega fimmfaldast.

Talsverð samþjöppun varð á innlendum sælgætismarkaði milli 1980 og 2004, eftir að hömlur á innflutningi erlends sælgætis voru afnumdar. Í dag er framleiðsla á íslensku sælgæti í höndum fjögurra fyrirtækja: Nóa Síríus, Góu, Freyju og Kólus. Fyrirtækin komu misvel út úr hruninu, en fram til ársins 2013 höfðu aðeins tvö þeirra – Góa og Kólus – skilað hagnaði á hverju ári síðan 2008. Undanfarin fjögur ár hafa fyrirtækin hins vegar komist á réttan kjöl á nýjan leik.

Nói Síríus horfir út fyrir landsteinana

Nói Síríus er stærsta sælgætisgerð landsins. Hlutdeild félagsins á innlendum sælgætismarkaði er um 60% miðað við veltu. Nói Síríus, sem stofnað var árið 1920, velti 3,9 milljörð­um króna á síðasta ári í um 8.000 fermetra húsnæði sínu við Hestháls 2-4, en starfsmenn fyrirtækisins eru um 160. Hagnaður Nóa Síríus nam rúmlega 695 þúsund krónum árið 2012, en í fyrra var hann tæplega 325 milljónir.

„Reksturinn hefur gengið prýðilega undanfarin ár og þá sérstaklega í fyrra,“ segir Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Síríus. Hann segir Evrópumótið í knattspyrnu síðastliðið sumar hafa gefið ófá tilefni til að fagna og gera vel við sig, og að neysla erlendra ferðamanna hafi verið kærkomin viðbót. Að öðru leyti hefur sælgætisneysla á Íslandi ekki breyst mikið á undanförnum árum. Hins vegar geri hátt gengi krónunnar samkeppni við erlent sælgæti erfiðara en ella.

„Hin hliðin á háu gengi krónunnar er að mest af hráefnum okkar fæst á lægra verði en ella, auk þess sem heimsmarkaðsverð á helstu hráefnum er búið að vera nokkuð skaplegt,“ segir Finnur. Hins vegar eigi þetta ekki við um mjólkurduft vegna tolla sem vernda innlenda mjólkurframleiðendur.

Á meðal framleiðsluvara fyrirtækisins er súkkulaði af ýmsu tagi undir heitinu Síríus, pokavörur með kroppi, rúsínum, lakkrís og fleiru undir heitinu Nóa, töflur með ýmsum bragð­ tegundum undir heitinu Opal og Tópas, hálsbrjóstsykur undir heitinu Háls og svo konfekt og páskaegg.

Finnur segist sjá litla stækkunarmöguleika með vörur Nóa Síríus á Íslandi. Fyrirtækið sé því að horfa út fyrir landsteinana með stækkun í huga, en undanfarin ár hefur Nói Síríus selt súkkulaði til Whole Foods verslana í Bandaríkjunum ásamt því að leggja upp úr því að vinna markaði á Norðurlöndunum.

Nói Síríus fjárfesti fyrir 203 milljónir króna á síðasta ári í vélum og tækjum. Heildarfjárfesting innlendra sælgætisframleiðenda var rúmlega 261 milljón, en árið á undan nam hún rúmlega 80 milljónum.

Nói Síríus er að mestu leyti í eigu afkomenda Hallgríms Benediktssonar athafnamanns sem eignaðist fyrirtækið árið 1924.

Helvíti góð veisla í gangi

Góa er önnur stærsta sælgætisgerð landsins með um fimmtungshlut af sælgætismarkaðnum. Fyrirtækið var stofnað árið 1968 og heldur sig til húsa í Garðahrauni 2 í Garðabæ. Meðal helstu framleiðsluvara Góu eru Hraun, Æði, Toffí, Prins, Flórída, Brak, Lindubuff, Conga og Appolo lakkrís. Samhliða framleiðslu flytur fyrirtækið inn sælgæti sem dreift er til söluturna og dreifingaraðila. Hlutafé Góa skiptist á fjóra hluthafa, en þar af eru 95,9% í eigu Helga Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra Góu.

Rekstrartekjur Góu námu tæplega 1,3 milljörðum króna á síðasta ári og hafa aukist nokkuð stöðugt undanfarin ár. Góa hagnaðist um 125,9 milljónir í fyrra, en árið 2013 nam hagnaðurinn 13,7 milljónum. Helgi segir ferðaþjónustuna og uppganginn í efnahagslífinu hafa haft jákvæð áhrif á veltu fyrirtækisins. Reksturinn og árangur Góu hafi hins vegar verið svipaður um langt árabil.

„Þessi mikla fjölgun sem orð­ið hefur á túristum hefur haft sín áhrif. Fjölgun á fólki í landinu upp á 100 þúsund í mánuði þýðir 100 þúsund fleiri munnar. Svo hefur verið helvíti gaman hjá Íslendingum núna í fimm ár. Þegar fólk er að endurnýja íbúð­ ir eða bílana sína þá leyfir það sér kannski meira í skyndibitum og gotteríi. En árangurinn hefur þó lengi verið svipaður frá ári til árs.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .