Sæstrengur milli Íslands og Bretlands gæti orðið mjög arðsamur og skilað gjaldeyrisinnstreymi til þjóðarbúsins. Sæstrengur gæti því haft töluverð jákvæð áhrif á lífskjör og skuldastöðu, samkvæmt nýrri hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Arðsemin mun þó að mestu ráðast af því hvort hægt verði að semja við Breta um fast verð á raforku til langs tíma. Samkvæmt útreikningum mun árlegur kostnaður við sæstreng nema rúmum 50 milljörðum króna, svo tekjur þurfi að minnsta kosti að standa undir þessum kostnaði.

Því hefur verið spáð í Bretlandi að almennt verð á raforku verði orðið 77 pund á megavattstund eftir 23 ár. Samkvæmt útreikningum hagfræðideildar gæti núvirði 40 ára samnings við Breta verið 137 milljarðar króna miðað við 8% ávöxtunarkröfu. Miðað við upphæðina 80 pund á megavattstund myndi taka 14,5 ár fyrir fjárfestinguna að borga sig upp, eftir að sala á raforku hefst.