*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 12. nóvember 2012 15:09

Sæstrengur Landsvirkjunar sá lengsti í heimi

Bretar eru áhugasamir um sæstreng Landsvirkjunar. Hörður Arnarson segir þetta krefjandi verkefni.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

Landsvirkjun getur lokið við lagningu sæstrengs til meginlands Evrópu og Bretlands á næstu átta árum, að sögn forstjórans Harðar Arnarsonar. Raforkukaup um sæstreng eru á sambærilegu verði og fyrir rafmagn sem framleitt er í kjarnorkuveri, að hans sögn. Ef af verður mun sæstrengurinn verða eitt þúsund kílómetra langur, þ.e. sá lengsti í heimi. 

Breska dagblaðið The Times ræðir við Hörð um möguleikana sem felast í lagningu sæstrengs til Bretlands í dag. Hörður segir þetta krefjandi verkefni en framkvæmanlegt. Þá segir Hörður að bæði sé búið að mæla lengd sæstrengsins og á hvaða dýpi hann þurfi að liggja. Þá segir Hörður næga orku til, framleiðslan sé fimmfalt meiri en landsmenn geti nýtt.

Rifjað er upp í blaðinu, að Charles Hendry, ráðherra orkumála í Bretlandi, hafi komið hingað til lands í maí í tengslum við viðræðum um lagnginu sæstrengsins héðan til Bretlands. 

Við þetta má bæta að fram kom í máli Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar á dögunum, að rannsóknir á lagningu sæstrengs héðan til Evrópu taki tvö til þrjú ár. Fjögur ár til viðbótar tekur að leggja strenginn. Verkið sagði hún tæknilega framkvæmanlegt og verkið fjárhagslega hagkvæmt. Þá sagði Ragna sæstrenginn geta kostað frá einum og hálfum milljarði evra og upp í tvo. Það jafngildir frá rúmum 240 milljörðum til rúmra 320 milljarða króna.